135. löggjafarþing — 118. fundur,  4. sept. 2008.

Viðlagatrygging Íslands.

651. mál
[12:00]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér fannst ráðherrann allur saman á miklu mýkri nótum núna. Hann er kannski að átta sig á því að það er alveg tilefni til skoðanaskipta um þetta mál og eru ýmis sjónarmið eðlilega uppi höfð í þeim efnum.

Ég er alveg sammála því að það er mikilvægt að hægt sé að bregðast fljótt við og greiða fólki bætur, meta tjónið hratt og það hjálpar fólki alveg tvímælalaust við að komast í burtu frá atburðunum og geta sem fyrst farið að takast á við að koma sínu heimili aftur í lag og hreinsa til. Það vill svo til að ég þekki nokkuð til í þessum efnum af því að ég á stóra og tengdafjölskyldu akkúrat á svæðinu þar sem mörg heimili voru grátt leikin. Ég er ekki að gagnrýna það í þessum efnum. Ég held hins vegar að einhver endanleg uppgjörsatriði eins og þau hvort sjálfsáhættan í endanlegu uppgjöri tjónsins yrði 80 þús., 50 þús. eða 20 þús. séu ákaflega einföld í framkvæmd. Það er hægt að borga inn á tjónið en skilja eftir uppgjör sem sé vegna þess að það hafi kannski ekki verið tekin endanleg ákvörðun um það nákvæmlega hvernig því verði fyrir komið.

Varðandi reglugerðarákvæði sem hæstv. ráðherra hafði ekki tíma til að svara í fyrra andsvari sínu þá bara stend ég við mína skoðun. Það á ekkert erindi inn í þetta mál. Það voru mistök — af því að ég er nú í góðu skapi og orða þetta mjög kurteislega — bara hrein mistök að hafa þetta með í bráðabirgðalögunum og menn eiga að sjá sóma sinn í að kippa þessu út.