135. löggjafarþing — 118. fundur,  4. sept. 2008.

Viðlagatrygging Íslands.

651. mál
[12:18]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki þeirrar skoðunar að miðað við þær almennu reglur sem settar hafa verið um bráðabirgðalög hafi ríkisstjórnin farið út af brúninni eða út fyrir ystu mörk. Mér finnst þó spurning um orðalagið sem ég vakti sérstaka athygli á: „Ráðherra er heimilt með reglugerð að ákvarða hækkun á ofangreindum lágmarksfjárhæðum.“

Ég vil hins vegar benda hæstv. viðskiptaráðherra á að lögfræði er ekki ein þeirra vísindagreina sem taldar eru vera „exact“ vísindi þar sem menn koma með hina einu réttu niðurstöðu nema dómstólar hafi þá fjallað um málið og æðsti dómstólinn. Ég reikna t.d. með því að það væri ágreiningur um þetta efni milli mín og hv. Atla Gíslasonar sem hefur viljað túlka þetta með mun þrengri hætti en ég vil gera. En ég tel miðað við það sem fræðimenn í lögfræði telja, m.a. menn sem ég tek mjög mikið mark á hvað þetta varðar, menn eins og Ólafur Jóhannesson og Bjarni Benediktsson, að þarna séum við innan heimilda hvað þetta varðar. Þó finnst mér mjög mikilvægt að gjalda varhuga við því að bæta inn reglum og ég hefði kosið að í andsvarinu hefði hæstv. viðskiptaráðherra vikið einmitt að þessum hortitti sem settur er inn í bráðabirgðalögin þar sem mér finnst eiginlega vera farið út fyrir brúnina í þeim efnum.