135. löggjafarþing — 118. fundur,  4. sept. 2008.

Viðlagatrygging Íslands.

651. mál
[12:22]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alltaf spurning um hvort má gagnálykta frá því sem menn segja í ræðustól eða utan hans eins og þegar hæstv. viðskiptaráðherra segir að vegna þess að sá sem hér stendur hafi þá menntun og starfsreynslu sem hann hefur og þess vegna taki hann mark á honum, sem þýðir þá að ef hann hefði ekki þá menntun eða starfsreynslu tæki hann ekki mark á honum. En það er annað mál.

Síðan segir hæstv. ráðherra að hann sé tilbúinn að taka undir gagnrýni varðandi 2. mgr. 1. gr. með hálfum hug og hann talar um að eiga samleið að hluta. Það er náttúrlega alltaf spurning um ef menn eru að fara til Akureyrar hvort menn eigi samleið upp á Akranes eða eitthvað lengra. (Gripið fram í.) Það hefði verið meira gaman og eðlilegra miðað við það sem hæstv. ráðherra sagði að hann hefði þá tekið af skarið og hreinlega gefið það út að það væri í sjálfu sér óeðlilegt að vera með svona viðbótarákvæði sem ekki bæri brýna nauðsyn til að hafa í lögum eins og bráðabirgðalögum.

Ég er hins vegar mjög ánægður með það, og ég tel nauðsynlegt að fá fram sem víðtækastan skilning á því og það var það sem hæstv. ráðherra sagði áðan, að það eigi að beita þessu ákvæði mjög varlega og ekki nema brýna nauðsyn beri til eins og ég gat um áðan. Í þessu tilviki var farið á ystu nöf varðandi beitingu þess og menn verða að gæta sín að gera það ekki og miða við það að sé þess kostur eigi að kalla Alþingi saman þegar nauðsyn ber til lagasetningar.