135. löggjafarþing — 118. fundur,  4. sept. 2008.

Viðlagatrygging Íslands.

651. mál
[12:24]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Það frumvarp til laga um breytingu á lögum um Viðlagatryggingu Íslands sem hér er lagt fram og er hugsað sem staðfesting á þeim bráðabirgðalögum sem ríkisstjórnin setti í vor vegna jarðskjálftanna á Suðurlandi er nú komið til umræðu eins og stjórnarskráin kveður á um að skuli gera strax í upphafi þings eða á næstu þingdögum eða innan mánaðar eftir að þing kemur saman.

Ég vísa til ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar varðandi almenna reifun málsins bæði hvað varðar eðlileg og nauðsynleg og skjót viðbrögð vegna þeirra náttúruhamfara sem gengu yfir Suðurland um mánaðamótin maí/júní, eða 29. maí. Það er afar mikilvægt að þeir sem verða fyrir tjóni af völdum náttúruhamfara hafi sem skýrasta mynd af réttarstöðu sinni hvað varðar bætur og þátttöku í hvers kyns kostnaði og útgjöldum sem fólk verður fyrir. Nógu erfitt er að bæta eða koma til móts við þau bæði andlegu og líkamlegu áföll sem oft fylgja í tengslum við náttúruhamfarir sem þessar. Það var ánægjulegt og einstök mildi að ekki skyldi verða meira líkamlegt tjón á fólki en raun ber vitni en vafalaust bera margir enn andleg ben frá þessum atburðum. Það er skoðun mín, svo sjálfsagt sem það er að bregðast við ef menn telja að á skorti, að það beri samt engu að síður að fara að lögum og ákvæðum stjórnarskrárinnar. Nú hefur það komið skýrlega fram að bráðabirgðalög, sem er mjög umdeilt í sjálfu sér hvenær á að beita — reyndar er skýrt kveðið á um að þeim eigi ekki að beita nema í algerum neyðartilvikum ef ekki er unnt að kalla þing saman og við nútímaaðstæður er auðvelt að kalla þing saman — en það var mat ríkisstjórnarinnar að sú staða væri uppi að þetta yrði að gerast með þessum hætti. En þá verður það fyrst og fremst bundið við mjög afmarkaða þætti málsins eins og hér er.

Ég vil þó taka undir orð þingmanns sem féllu hér áðan. Mig minnir að það hafi verið hv. þm. Jón Magnússon sem benti á að þrátt fyrir bráðabirgðalagasetningu af þessum toga sem hefur í för með sér aukin fjárútlát eða útgjöld og fjárskuldbindingar af hálfu ríkisins en fjárlagaheimildir eru til um þá ber bæði samkvæmt stjórnarskránni og einnig samkvæmt lögum um fjárreiður ríkisins að bera slíkt undir Alþingi, a.m.k. að kynna það fyrir fjárlaganefnd strax. Það hefur ekki verið gert og allan þennan tíma síðan í byrjun júní hefur fjárlaganefnd í sjálfu sér ekki fengið neina formlega tilkynningu um þetta. Það er hún sem fjallar um eða fer með þessi mál fyrir hönd Alþingis þegar þingið ekki situr. Ég gagnrýni þau vinnubrögð að ekki skuli farið að eðlilegum stjórnsýslulögum hvað þetta varðar og þó að málið sé brýnt og gott og þarft er það engin afsökun.

Í öðru lagi vil ég líka leggja áherslu á að nú þegar málið kemur til meðferðar um Viðlagatryggingu Íslands og hvernig umboð hennar til að koma inn í tjónabætur er víkkað út og gert skýrara að því marki sem menn töldu að ekki væri skýrt sem er gott, þá tel ég mjög mikilvægt að einnig sé horft til fleiri slíkra tilvika sem geta komið upp og vafi leikur á.

Það er minnst á náttúruhamfarir eins og jarðskjálfta og fleira, snjóflóð, skriðuföll o.s.frv., viðurkenndar náttúruhamfarir. Þó eru enn mörg tilvik þar sem réttarstaða er óviss og það kom einmitt upp í umræðunni um jarðskjálftana á Suðurlandi í ár að uppgjöri vegna jarðskjálftans árið 2000 er enn ekki lokið. Þar eru enn margir aðilar sem telja að á þeim hafi verið brotið eða þeir ekki fengið fullnægjandi bætur.

Ég vil einnig minnast á fleiri atriði sem geta komið upp. Hér er fyrst og fremst talað um það þegar verða hópskaðar af þessum toga. En það er jafnalvarlegt fyrir hvern einstakling þó að það sé bara eitt heimili sem verður fyrir skaða. Við höfum heyrt umræðuna um fólk sem lendir í því að hús þeirra verður ónýtt vegna myglusvepps t.d. — vegna atriða, náttúrulegra fyrirbrigða, sem ekki er hægt að tryggja sig fyrir. Og það má nefna fleiri slík dæmi þar sem fólk á á hættu að tapa eigum sínum, húsi sínu og húsbúnaði. Það getur ekki tryggt sig og viðlagatrygging eða samtrygging með öðrum hætti kemur ekki til móts við það.

Ég lít svo á að það sé sameiginlegur vilji okkar allra að það ríki sú samtrygging og samhjálp meðal þjóðarinnar að einstaklingar og heimili eigi rétt til bóta ef þeir verða fyrir tjóni eins og ég hef nefnt hér og ekki hefur verið hægt að tryggja sig fyrir. Við þekkjum mörg sorgleg dæmi um þetta og því tel ég nauðsynlegt þegar farið er í gegnum þetta frumvarp, þó að því hafi í sjálfu sér ekki verið ætlað að taka á nema þessu afmarkaða máli, að nefndin fari yfir þessa þætti líka þannig að fulls samræmis og jafnræðis sé gætt. Við viljum efla og standa að baki samtryggingunni og við viljum líka að hún nái til þessara þátta og ef fleiri kunna að vera en ég hef hér nefnt.

Ég tel einnig mikilvægt þegar málið kemur til nefndar, og ég sit í viðskiptanefnd fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, að farið sé mjög nákvæmlega yfir það og við fáum nákvæmar upplýsingar um það hvernig þessi mál hafa gengið fyrir sig á Suðurlandi í vor, í sumar og í haust og hvernig staðan þar er varðandi tjón og bætur og hvaða frekari aðgerðir þarf að gera. Ég tel einnig mikilvægt að safnað sé upplýsingum um önnur möguleg tilvik sem snerta einstaklinga og heimili, fyrirtæki og mannvirki sem fólk getur ekki tryggt sig með eðlilegum hætti fyrir en getur orðið fyrir ófyrirsjáanlegu tjóni af eins konar náttúruhamförum án þess þó að þær þurfi endilega að vera jarðskjálftar, skriðuföll eða snjóflóð og þannig sé samtryggingin tryggð.

Þetta voru orð mín í þessu sambandi, frú forseti, að samtrygging og samhjálp í atburðum sem þessum og öðrum viðlíka eigi að vera skýr og ljós og við eigum að standa þar mjög vel saman.