135. löggjafarþing — 118. fundur,  4. sept. 2008.

Viðlagatrygging Íslands.

651. mál
[12:36]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er kannski ósanngjarnt af mér að ætlast til þess að þingmenn sem hafa setið í áratug næstum því í fjárlaganefnd þekki haus og sporð á stofnunum ríkisins. Ég vil upplýsa hv. þingmann um það að Viðlagatrygging Íslands er sjálfstætt fyrirtæki sem hefur sjálfstæðan fjárhag og lýtur eftirliti Fjármálaeftirlitsins. Það er enginn að koma til þingsins og biðja um peninga vegna þessa. Það sem hér um ræðir er einfaldlega að breyta lögum um stofnunina til þess að hún geti greitt úr sínum sjóðum sem þessu nemur. Það er enginn að biðja hv. Alþingi um að samþykkja fjárframlag vegna þessa.

Ef staðan væri sú að það væri verið að biðja um peninga til þess að standa undir þessu þá hefði að sjálfsögðu þurft að gera það, koma til fjárlaganefndar og fara að fjárreiðulögum. En það er ekki svo. Og það er kannski lágmark að menn viti svona grundvallaratriði í málinu þegar þeir halda langar ræður um það.