135. löggjafarþing — 118. fundur,  4. sept. 2008.

Viðlagatrygging Íslands.

651. mál
[12:42]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Við ræðum bráðabirgðalög um Viðlagatryggingu Íslands og ég vil leyfa mér að koma með eina fyrirspurn til hv. þm. Jóns Bjarnasonar í þessu andsvari sem varðar ræðu hans hér áðan því þar fullyrðir hann að ekki sé búið að ganga frá málum frá því í jarðskjálftunum 2000.

Ég mundi vilja fá að heyra í hv. þingmanni hvaða mál séu óafgreidd. Samkvæmt mínum upplýsingum hefur Viðlagatrygging Íslands gengið frá öllum þeim málum sem urðu í hamförunum árið 2000 og þær reglur sem gilda núna eru slíkar varðandi tjónið í jarðskjálftunum 29. maí að fjögur ár mega líða þangað til tjón er tilkynnt þannig að það fyrnist ekki fyrr en eftir fjögur ár og tíu ár mega líða frá atburði þangað til að búið að verður að klára og ganga frá tjóni.

Ég held að við Íslendingar eigum að vera stoltir af því hvernig við höfum búið þennan lagaramma og búið þessa tryggingu til sem er Viðlagatrygging Íslands. Ég hygg að í fáum löndum sé jafn vel er búið að þessum tryggingaþætti gagnvart vá af náttúrunnar hendi eins og er hér á landi. Þess vegna finnst mér að við eigum að fara rétt og satt með.

En ef hv. þingmaður veit um mál sem eru ófrágengin þá væri gott að fá að heyra það.