135. löggjafarþing — 118. fundur,  4. sept. 2008.

Viðlagatrygging Íslands.

651. mál
[13:44]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Það ætti ekki að þurfa að ræða bráðabirgðalög, það á ekki að þurfa að setja bráðabirgðalög á meðan þing er að störfum. Þó að þing sé að fara í frí einhvern tíma er minnsta mál, og hefði verið í þessu tilfelli, að kalla þingið saman, þess vegna að fresta þinglokum um tvo, þrjá daga eða eitthvað þess háttar. Þetta er klúður og það á ekki að nota bráðabirgðalög með þessum hætti.

Bætur vegna skjálftans 2000 á Suðurlandi voru með þeim hætti að það eru margir óánægðir og sárir út í ríkisstjórnina og stjórnmálamenn fyrir hvernig var staðið að þeim og telja sig ekki hafa fengið réttar bætur fyrir þau óhöpp og það ólán sem fólk lenti í. Það er hætt við því að það verði núna líka vegna þess að það eru ákveðnir hlutir sem falla kannski ekki undir innbú eða venjulegar tryggingar og það er það sem maður hefur áhyggjur af á þessu svæði, að það verði margir sem telji sig ekki fá bætur sem þeim ber. Það er sumt sem er svona á jaðrinum, t.d. hvað varðar nýbyggingar, vatnslagnir, klóaklagnir og ýmislegt í þeim dúr.

Það er auðvitað vont að tryggja eftir á eins og hefur komið fram en ég fagna lækkun á sjálfsábyrgðinni. En fyrst við erum að tala um þessi bráðabirgðalög er rétt í lok þeirrar umræðu að þakka lögreglu og björgunarsveitum hvernig þau stóðu að málum í aðgerðunum í vor. Það hefur tekist þokkalega til og við megum kannski þakka það því að við erum orðin reynslunni ríkari í svona tilfellum, þegar svona ógæfa brestur á, við getum lært af því, en við þurfum að ganga þannig frá þessum málum að fólk fái þær bætur sem því ber og geti sloppið frá þessu að mestu leyti án tjóns.