135. löggjafarþing — 118. fundur,  4. sept. 2008.

Viðlagatrygging Íslands.

651. mál
[14:05]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Um það atriði sem ég spyr hvað mest um, rökstuðninginn fyrir því að breyta sjálfsábyrgðinni í lágum tjónum, þá eru rökin í frumvarpinu þau að hækkunin á vísitölu byggingarkostnaðar hafi verið óeðlilega há og því þurfi að breyta til að tjónþolar fái sanngjarnar bætur. Nú er staðreyndin sú að ef sjálfsábyrgðin hefði hækkað miðað við vísitölu launa en ekki byggingarkostnað væri sjálfsábyrgðin ekki 85 þúsund heldur 105 þúsund, þá væri hún 20 þús. kr. hærri. Ef sjálfsábyrgðin hefði fylgt neysluverðsvísitölu væri hún 75 þúsund en ekki 85 þúsund. Ef menn breyta viðmiðuninni mundi hún lækka í öðru tilvikinu um 10 þúsund en hækka í hinu tilvikinu um 20 þúsund. Ég get ekki fallist á að það sé rökstuðningur fyrir því sem fullyrt er sem ástæða fyrir málinu í bráðabirgðalögunum og það er enn síður rökstuðningur fyrir því ef það eru rökin að byggingarvísitala hafi hækkað meira en t.d. neysluverðsvísitala. Hvernig stendur á því að sjálfsábyrgðin fer þá ekki niður í 75 þúsund heldur niður í 20 þúsund og er þá orðin innan við einn fjórði af því sem sjálfsábyrgðin var í tjónunum á Suðurlandi árið 2000? Menn þurfa auðvitað að fá svör við því. Voru menn svona miklu betur í stakk búnir til að bera tjónið árið 2000 en árið 2008? Menn verða að gæta að þessu í lagasetningu. Mér finnst það ekki rök fyrir því að lækka sjálfsábyrgðina vegna þess að það reyni á hana þegar tjónin eru lág og hafa tjón tjónþolans óbreytt þegar tjónið er mikið, því að það er áfram 5%. Er ekki frekar ástæða til að ívilna þá tjónþolunum (Forseti hringir.) í miklu tjóni en í litlu tjóni?