135. löggjafarþing — 118. fundur,  4. sept. 2008.

Viðlagatrygging Íslands.

651. mál
[14:08]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þegar jarðskjálftinn reið yfir árið 2000 komu einmitt upp raddir um að sjálfsábyrgðin væri of há. Það var rætt þá og það var þess vegna sem þær raddir komu samstundis upp, svo að segja bara daginn eftir að jarðskjálftinn reið yfir þann 29. maí. Eins og ég hef sagt í ræðum mínum í dag byggja menn á þeirri reynslu sem varð til þá og þetta var eitt af því sem kom til umræðu þá. Hugsanlega hefðu menn átt að grípa þá þegar til þess ráðs — ég þori varla að segja það — að veita einhvers konar heimild til ráðherra inn í lögin til að breyta því. Það var ekki gert. Menn gerðu það núna með þessum hætti.

Ef hv. þingmaður skrúfar nú aðeins til baka fram í daginn og rifjar upp ræðu mína fyrir framsögunni þá lagði ég enga sérstaka áherslu á þróun byggingarvísitölunnar. Það sem ég lagði áherslu á var að sjálfsábyrgðin væri allt of há í samanburði við þá sjálfsábyrgð sem er í sams konar tjónum hjá þeim félögum sem starfa á tryggingamarkaði. Sú upphæð hefur lækkað með árunum, hugsanlega vegna innbyrðis samkeppni þeirra. Þar er munurinn. Sjáið til, frú forseti, þessi félög hafa sjálfsábyrgð upp á 10–20 þús. kr. Sjálfsábyrgðin, þegar hún er uppreiknuð miðað við 1. apríl, samkvæmt lögunum um Viðlagatryggingu Íslands er 85 þúsund. Munurinn er því frá því að vera fjórfaldur upp í það að vera rösklega áttfaldur. Það er það sem ég átti við í framsögu minni að væri óhóflegur munur eins og ég hef orðað það. Þetta var ekki sísta röksemdin sem gerði það að verkum að ríkisstjórnin small til eindrægni og samstöðu um þetta mál á sínum tíma.

Ég ítreka það að bráðabirgðalög orka alltaf tvímælis, ég tek undir það, en í þessu tilviki er ég algjörlega sannfærður um að þarna voru menn innan valdheimilda.