135. löggjafarþing — 118. fundur,  4. sept. 2008.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands.

442. mál
[15:06]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að segja nokkur orð um þetta frumvarp um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands vegna þess að ég var ekki viðstödd þegar málið var tekið úr nefndinni en tók að sjálfsögðu þátt í vinnu nefndarinnar sem var allmikil í vetur og hefur skilað því að menn eru sammála um þetta mál þegar það kemur nú til 2. umr. í þingið. Frumvarpið kom í vetur inn í þingið eftir mikla stefnumótunarvinnu í utanríkisráðuneytinu og var vandað. En síðan hefur málið fengið ágæta umræðu og umfjöllun í nefndinni. Ég er ekki frá því að það sé enn vandaðra þegar það kemur þaðan eftir þær breytingar sem lagðar eru til við 2. umr.

Hér eru á ferðinni fyrstu íslensku heildarlögin um þróunarsamvinnu þar sem tekið er tillit til allra þátta hennar. Þessi lög munu leysa af hólmi lög sem eru barn síns tíma, 27 ára gömul lög um Þróunarsamvinnustofnun Íslands, lög frá 1981. Verið er að auka mjög fjárveitingar til þróunarsamvinnu og eins og komið hefur fram í umræðunum í umfjöllun um þetta mál fer þriðjungur af útgjöldum utanríkisráðuneytisins til þessa málaflokks þannig að það er mjög mikilvægt að um hann sé mjög skýr lagasetning og vönduð.

Ég get tekið undir það sem komið hefur fram að þróunarsamvinnumál eru öryggismál, ákaflega mikilvæg sérstaklega núna þegar við horfum fram á ýmsar breytingar, loftslagsbreytingar. Hlýnun jarðar mun hafa áhrif í þeim löndum sem njóta þróunaraðstoðar og því mikilvægt að til hennar sé vandað. Ég fagna líka þeim áherslum sem hafa verið settar um þróunaraðstoðina í ráðuneytinu þar sem lögð hefur verið áhersla á aðstoð við konur og börn. Það skilar sér svo sannarlega til fjölskyldunnar, bæði menntun og heilsugæsla. Ég fór á eigin vegum og skoðaði það sem við höfum verið að gera í Afríku og sá hversu miklu það skilaði að kenna konunum lestur, skrift, reikning og síðan að sinna heilsugæslu þeirra, kvenna. Ég tel það vera mjög mikilvægt.

Það hefur verið farið yfir það í ræðum á undan minni ræðu um hvað var fjallað í nefndinni. Það var tekið á ýmsum þáttum. Meðal annars var heilmikil umræða um að stjórnin yrði lögð niður í Þróunarsamvinnustofnun. Það var rætt um aðkomu Alþingis og ýmislegt fleira, valdaframsal til ráðherra, og skilar sú umræða sér hér í þeim breytingartillögum sem liggja fyrir þinginu og ég held að það hafi vel tekist til í þeim efnum. Það er mikilvægt að fá nýja löggjöf. Við höfum gengist undir ýmsa alþjóðasáttmála sem snúa að þróunarhjálp og tekið er tillit til í þessari löggjöf. Mig langar að nefna þúsaldaryfirlýsinguna frá árinu 2000, Monterrey-yfirlýsinguna um fjármögnun þróunarhjálpar frá 2002 og svo Parísaryfirlýsinguna um markvissan árangur í þróunarsamvinnu. Með þessari lagasetningu, þegar þetta frumvarp verður orðið að lögum, verða þessi atriði sem kveðið er á um í þessum sáttmálum komin í íslenska löggjöf.

Ég sé enga ástæðu til að fara neitt ítarlega yfir þessar breytingar sem við höfum lagt til þar sem það hefur verið gert mjög vel. Ég vil reyndar þakka formanni nefndarinnar og varaformanni fyrir þá vinnu sem þeir hafa lagt á sig til að ná samstöðu í nefndinni í þessu máli öllu. Ég taldi þó ástæðu til að koma aðeins hér upp og segja nokkur orð þar sem ég hafði ekki tök á því við 1. umr. málsins og var ekki viðstödd afgreiðslu málsins í vor þegar það var afgreitt úr nefndinni. Svo sannarlega styð ég þetta mál heils hugar og vonast til að það verði afgreitt fljótt og vel héðan frá Alþingi þannig að við getum farið að sinna okkar þróunaraðstoð eftir þeirri lagasetningu sem hér er lögð til.