135. löggjafarþing — 118. fundur,  4. sept. 2008.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands.

442. mál
[15:12]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það frumvarp til laga um þróunarsamvinnu sem hér er til 2. umr. felur í sér mikil tímamót. Í gildi eru nærri 30 ára gömul lög um þróunarsamvinnu Íslands sem endurspegla á engan hátt nútímaviðhorf til þróunarsamvinnu og framkvæmdar hennar og það er mjög mikilvægt að breyta þeirri umgjörð.

Frumvarpið sem utanríkismálanefnd fékk í hendur var vel úr garði gert af hálfu ráðuneytisins og í það hafði verið lögð mikil vinna. Það kom skýrt fram af því frumvarpi að lögð hafði verið mikil rækt við þá stefnumörkun sem að baki lá og frumvarpið var vel hugsað að því leyti. Það sem ég tel mikilvægast við þetta frumvarp er að með því er vörðuð leiðin áfram fyrir íslenska þróunarsamvinnu og það skapar tækifæri og svigrúm fyrir aukna fjölbreytni í þróunarsamvinnu og því hvernig þróunarsamvinna er veitt. Núverandi lagaumgerð þvingar okkur nær alfarið til áherslu á tvíhliða þróunaraðstoð af gömlu sortinni sem byggist á afmörkuðum verkefnum sem unnin eru í samvinnu við þau lönd sem aðstoðarinnar njóta.

Með því frumvarpi sem hér er lagt fram er gert ráð fyrir því að svigrúm verði aukið að þessu leyti þannig að íslensk stjórnvöld eigi um það val við framkvæmd þróunarsamvinnunnar að taka þátt í fjölbreyttari formum í þróunarsamvinnu hvort heldur er með körfufjármögnun eða fjárlagastuðningi við samstarfsríki. Við höfum unnið með mörgum ríkjum. En það einkennir þátttöku okkar í þróunarsamvinnu að þegar samstarfsríkin eru komin nokkuð á legg og uppfylla skilyrði fyrir fjárlagastuðningi þá lýkur vegferð okkar með þessum samstarfsríkjum og það er miður að við getum hjálpað ríkjum rétt af stað en getum ekki fylgt þeim lengra á þróunarbrautinni. Þess vegna er mikilvægt að hafa svigrúm til þess að koma að þróunaraðstoð með ólíkum hætti. Það er algengt viðhorf að þeir fjármunir sem Ísland hefur til ráðstöfunar til þróunarsamvinnu séu ekki svo miklir í hnattrænu samhengi að þeir skipti nokkru máli þegar kemur að fjárlagastuðningi eða körfufjármögnun. Ég er því hjartanlega ósammála og held að það sé mjög mikilvægt að við getum eins og önnur ríki sem sinna þróunarsamvinnu tekið þátt í uppbyggilegu þróunarsamstarfi með samstarfsríkjum okkar. Ég held að okkar krónur skipti líka máli í hinu stóra samhengi þegar kemur að fjárlagastuðningi við ríki eða körfufjármögnun. Að því er körfufjármögnun varðar þá tel ég að lítið ríki eins og Ísland sem hefur takmarkaða burði í innviðum til þess að stjórna fjárveitingum til þróunarsamvinnu geti sérstaklega nýtt sér vel körfufjármögnun.

Í því frumvarpi sem hérna liggur fyrir er kveðið með skýrum hætti á um aðkomu Alþingis að stefnumörkun um þróunarsamvinnu og er það mikið nýmæli. Það er ekki bara nýmæli á sviði þróunarsamvinnu. Það er líka ákveðið nýmæli í meðferð málaflokks í íslensku stjórnkerfi. Hér er í sjálfu sér gert ráð fyrir því að utanríkisráðherra leggi áætlun fram á Alþingi og þingið komi þar með beinum hætti að forgangsröðun í þróunarsamvinnu og taki þátt í að leggja línur um hvernig áherslur í þróunarsamvinnu eru til lengri og skemmri tíma. Þetta er mjög mikilvæg nýbreytni en hún leggur okkur auðvitað skyldur á herðar um vandaða meðferð þessara mála og sannast hér enn og aftur að þegar þingið fær aukin verkefni og aukna ábyrgð þá kallar það líka á að þingið sjái til þess að það hafi nægilega burði og búi yfir þeim innviðum sem gera því kleift að takast á við ný verkefni.

Í meðförum nefndarinnar var fjallað nokkuð um þessa þætti sem lúta að aðkomu Alþingis að þróunarsamvinnunni og var um það mikil samstaða hvernig henni skyldi hagað og í sjálfu sér styrkt enn frekar aðkoma Alþingis að því máli með þeirri breytingu sem lögð er til í breytingartillögu, að komið verði á sérstakri þróunarsamvinnunefnd.

Virðulegi forseti. Í umræðu nefndarinnar var einnig nokkuð fjallað um starfsmannamál eins og hér hefur verið rakið í þessari umræðu. Það er vissulega þannig að sérsjónarmið gilda samkvæmt því frumvarpi sem hér er lagt til að verði að lögum. Það gilda nokkur sérsjónarmið um starfsmenn sem koma að málefnum þróunarsamvinnu. Fyrir því eru sterk rök og þau lúta að séreðli þessarar stofnunar. Ég held að það sé ekki rétt að stilla málum þannig upp að í því felist einhver lítilsvirðing gagnvart öðrum opinberum starfsmönnum heldur er einfaldlega eðli þessarar starfsemi slíkt, sérstaklega eðli starfsemi eins og þeirrar sem við höfum rekið hingað til að mestu, sem er tvíhliða þróunaraðstoð byggð á afmörkuðum verkefnum. Þar þarf oft afmarkaða þekkingu um stund og því erfitt að koma því við að ráða starfsfólk til langframa til stofnunarinnar. Auðvitað er valkostur í því efni hvað starfsmannamálin varðar að taka einfaldlega upp fyrir Þróunarsamvinnustofnun einhvers konar flutningsskyldukerfi fyrir þá starfsmenn sem þar starfa til langframa. En það er í sjálfu sér ekki heldur einfalt í framkvæmd og skapar náttúrlega líka þá ákveðna tvískiptingu milli þeirra sem hjá stofnuninni starfa.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon rakti áðan þá breytingartillögu sem nefndin hefur orðið sammála um, sem er að fella út 6. gr. frumvarpsins sem felur í sér tilvísun til þess að um þátttöku í friðargæsluverkefnum fari samkvæmt ákvæðum laga um Íslensku friðargæsluna og þátttöku hennar í alþjóðlegri friðargæslu. Hv. þingmaður kaus að lesa í þetta hvatningu til hæstv. utanríkisráðherra um að skilja þróunarsamvinnu frá friðargæslu. Ég tel að þar hafi hann farið nokkuð offari í túlkun á vilja nefndarinnar. Reyndar er skýrt tekið fram að ástæðan fyrir því að þessi breyting er lögð til sé sú að nefndin telur þetta ákvæði hafa litla sjálfstæða þýðingu og vill þess vegna að það falli brott. Það kom skýrt fram í nefndinni að enginn einhugur er þar um að aðskilja eigi friðargæslu frá þróunarsamvinnu. Þvert á móti er ég eindreginn talsmaður þess að friðargæsla og þróunarsamvinna séu samtvinnuð sem kostur er og ég tel að það sé mjög mikilvægur þáttur í framtíðarþróun hvors tveggja. Við höfum of lengi undanfarin ár nálgast alþjóðlega friðargæslu á forsendum ... (ÖJ: NATO.) sérstaklega NATO, já, eins og hv. þingmaður kallar hér fram í og því er mjög mikilvægt að binda hana frekar við alþjóðlega þróunarsamvinnu þar sem hún á betur heima samkvæmt öllum alþjóðlegum viðmiðunum. Með því er lögð ríkari áhersla á hinn borgaralega þátt friðargæslunnar en hinn hernaðarlega og það er sú stefna sem liggur að baki stefnumörkun Alþingis og stefnumörkun utanríkisráðherra í málefnum alþjóðlegrar friðargæslu. Ég held að menn sem kalla eftir aðskilnaði friðargæslu og þróunarsamvinnu vegna þess að þeir vilja draga úr áherslu á hernaðarlegan þátt friðargæslunnar fari villir vegar. Þvert á móti skiptir máli að tvinna hvort tveggja saman til þess að fella friðargæsluna í þann ramma sem hún á betur heima sem er í samræmi við borgaralegt starf að þróunarsamvinnu.

Í umræðunni hefur aðeins verið drepið á aðkomu einkaaðila að verkefnum á sviði þróunarsamvinnu. Um það var nokkuð rætt í meðförum nefndarinnar. Ég held að í því efni skipti mestu máli hvernig unnið er að hinum faglega grunni verkefnanna. Aðkoma einkaaðila, held ég, að gæti orðið af hinu góða í þróunarsamvinnuverkefnum en þá að því tilskildu að það sé algerlega ljóst að verkefnin séu ekki unnin á forsendum einkaaðila heldur að einkaaðilar geti með einhverjum hætti sóst eftir að taka að sér einstaka þætti í framkvæmd verkefna sem hins vegar eru skilgreind af hinu opinbera og að hið opinbera hafi gæðaeftirlit og faglegt eftirlit með framkvæmd verkefnanna. Ég held að í sjálfu sér mæli ekkert heldur gegn því að í auknum mæli verði notast við ráðgjafa og sérfræðinga á einkamarkaði í framkvæmd þróunarverkefna. Það er ekki þannig að opinberir starfsmenn búi yfir hinni endanlegu handhöfn sannleikans. Það hafa margir þekkingu og vitneskju sem starfa vítt og breitt í samfélaginu og mikilvægt að við getum boðið samvinnuríkjum okkar upp á víðtæka þekkingu og bindum okkur ekki við að bjóða bara fram sérþekkingu opinberra aðila. En allt fer þetta eftir því á hvaða forsendum aðkoma einkaaðila er. Ef hún er á forsendum þeirrar stefnumörkunar sem liggur að baki frumvarpinu og ef unnið yrði með þeim hætti og skilgreindar skýrar efnislegar kröfur gerðar til þeirra sem að framkvæmd verkefnanna kæmu þá óttast ég ekki aðkomu einkaaðila. Ég held að hún gæti beinlínis orðið til góðs fyrir skilning okkar allra og þátttöku okkar allra í þróunarsamvinnunni.

Virðulegi forseti. Að síðustu vil ég þakka fyrir þann góða einhug sem náðist í nefndinni um þetta mál. Það var sérstaklega gaman að vinna að nefndarálitinu og náðist mjög góð samstaða um það meðal allra flokka og það tel ég mikils virði og það er gott veganesti fyrir ráðherra við framkvæmd þessara mála. Það er mikilvægt þess vegna, tel ég, að byggja á þeim grunni. Alþingi mun áfram koma að málefnum þróunarsamvinnu og það er æskilegt að gera það eins myndarlega og við mögulega getum gert. Þetta frumvarp, verði það að lögum, skapar jákvæðan og góðan ramma utan um aðkomu Alþingis að þessum málaflokki.