135. löggjafarþing — 118. fundur,  4. sept. 2008.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands.

442. mál
[15:29]
Hlusta

Frsm. utanrmn. (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla bara að koma hér að örstuttum athugasemdum í tilefni umræðunnar sem hér hefur farið fram og hefur verið í alla staði góð og undirstrikar þá samstöðu sem hefur tekist að mynda um þetta mál.

Það er í fyrsta lagi atriði sem varða þróunarsamvinnunefndina og fjölda fulltrúa í henni. Það kom fram í máli hv. þingmanna Steingríms J. Sigfússonar og Sivjar Friðleifsdóttur að það væri þeirra skilningur að fjöldi fulltrúa í þróunarsamvinnunefndinni væri eins og hann er í tillögunni, þ.e. sjö í þeim tilgangi að tryggja öllum þingflokkum aðkomu að nefndinni og ég vil bara staðfesta þennan skilning. Þetta er sami skilningur og ræddur var í nefndinni, hugmyndin var sú að allir þingflokkar gætu átt þar fulltrúa þó að það segi ekki berum orðum í tillögutextanum.

Hér hefur einnig verið rætt um ráðningamálin, starfsmannamálin hjá Þróunarsamvinnustofnun. Nefndarmenn hafa hreyft hér athugasemdum og ég gat þess í framsögu minni áðan að 8. gr. í frumvarpinu fékk þó nokkra umfjöllun og vissulega voru uppi ákveðnir fyrirvarar í nefndinni við þessar sérreglur sem er að finna í frumvarpinu. Þess vegna vil ég láta þess getið að þetta eru atriði sem við tókum til mjög gaumgæfilegrar skoðunar. Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að við eigum sem allra mest að styðjast við almennar reglur þegar kemur að starfsmannamálum opinberra starfsmanna og þær undantekningar sem við erum að fjalla um í þessu tilviki eru fyrst og fremst tvenns konar.

Það er hin tímabundna ráðning til allt að fimm ára í stað almennu reglunnar um tvö ár. Ég tel eftir að hafa skoðað þetta mjög ítarlega í nefndinni að þá séu þau rök sem teflt var fram fyrir reglunni nægjanleg til þess að fallast á þessa undanþágu frá almennu reglunni. Reyndar tel ég að það hafi kannski verið nokkuð langsóttara með ráðningu án auglýsingar en engu að síður voru færð fram fullnægjandi rök fyrir nefndinni til þess að það tókst samstaða í nefndinni um að styðja tillöguna eins og hún liggur fyrir þannig að í þeim tilvikum sem þar eru nefnd sé hægt að færa starfsmenn á milli án auglýsingar. Það eru dæmi um viðlíka reglur til að mynda hjá Varnarmálastofnun en þetta er atriði sem verður auðvitað að meta í hvert sinn fyrir sig. Ég vil bara taka það fram að að mínu áliti eigum við að leggja okkur fram um að skapa almennan lagaramma um þessi efni og reyna að forðast undantekningar sem mest við getum.

Síðan bara stuttlega að atriðinu sem hv. þm. Ögmundur Jónasson vék að, um hæfniskröfurnar fyrir forstöðumann Þróunarsamvinnustofnunar. Nefndin ræddi stuttlega um hæfnisskilyrðin. Hún fór ekki í endurmat á hæfnisskilyrðunum eins og þeim var teflt fram í frumvarpinu. En breyting nefndarinnar lýtur fyrst og fremst að því að skýra þann skilning sem nefndin lagði í frumvarpið, þ.e. að það væri átt við að hæfniskröfurnar ættu að vera háskólapróf og það væri þá betra að segja það bara hreint út frekar en að tala um háskólamenntun.

Ég held hins vegar að það megi ekki horfa fram hjá því að með því að gera ekki skilyrði um einhverja tiltekna menntun í þessu tilviki þá er einmitt verið að halda ákvæðinu opnara og það er víðara en væri ef ákvæðið fjallaði um að það væri einhver tiltekin háskólamenntun sem krafist væri. Þannig að þessu leytinu til er ákvæðið einungis bundið við háskólapróf. Síðan gilda almennar reglur um það í stjórnsýslunni hvernig gert er upp á milli umsækjenda þegar það á við.

Að þessu sögðu vil ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram og ítreka aftur ánægju mína með samstöðuna sem hefur tekist í nefndinni um málið.