135. löggjafarþing — 118. fundur,  4. sept. 2008.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands.

442. mál
[15:34]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka fyrir þá málefnalegu umræðu sem hér hefur farið fram af hálfu utanríkismálanefndarmanna sem hafa unnið með þetta mál og þekkja það greinilega orðið allvel. Ég vil þakka formanni og varaformanni utanríkismálanefndar fyrir þá vinnu sem þeir hafa báðir lagt í málið og hversu mjög þeir hafa lagt sig fram um að ná góðri sátt og samstöðu um málið í nefndinni. Ég tel að það sé mjög mikilvægt því hér er auðvitað um gríðarlega mikilvægan málaflokk að ræða, hina alþjóðlegu þróunarsamvinnu Íslands sem mikilvægt er að sem breiðust sátt sé um og góður stuðningur við af hálfu alþingismanna allra.

Það er hins vegar ekki svo að stefna og straumar í alþjóðlegri þróunarsamvinnu séu alveg hafin yfir pólitíska umræðu eða skoðanaskipti. Það er ekki þannig að það sé til einhver hrein stefna þegar kemur að þróunarsamvinnu þannig að það sé hægt að stunda þróunarsamvinnu hreina og ómengaða eins og menn láta kannski stundum liggja að í umræðunni því að sjálfsögðu eru jafnvel heilmiklar deilur og mikil umræða og það fara fram mikil skoðanaskipti um það um allan heim hvernig best sé að sinna þróunarsamvinnu og sýnist sitt hverjum í því. Það er bara eins og í velferðarpólitíkinni, við viljum jú stunda og vera með velferðarpólitík en það er nokkuð umdeilt hvaða leiðir eigi að fara og hvað gefist best og hvernig eigi að skipuleggja hana o.s.frv. Sama á við um þróunarsamvinnuna, þó að þetta sé vissulega mjög mikilvægur málaflokkur, þetta sé málaflokkur sem stendur mörgum mjög nærri þá er hann ekki þannig að það sé hægt að taka hann út úr einhverjum umræðufarvegi og um hann geti ekki staðið deilur eða skiptar skoðanir.

Ég segi þetta vegna þess að mér fannst það aðeins koma fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að það færi best á því og það mundi gera það að verkum að ekki yrðu neinar deilur um málaflokkinn ef hann væri algjörlega sjálfstæður, eins og það var orðað, og að hann yrði tekinn einhvern veginn svolítið út fyrir ramma í öllu öðru sem lýtur að mótun utanríkisstefnu. Ég held að í rauninni hljóti þróunarsamvinna Íslands alltaf að tengjast utanríkisstefnu Íslands að einhverju leyti og þeim áherslum sem við viljum þar leggja. Um leið hljótum við auðvitað að skipuleggja hana miðað við það sem best gerist í öðrum löndum og fara eftir þeim stefnumiðum sem best eru talin á hinum alþjóðlega vettvangi.

Það hefur farið fram nokkur umræða um það hér hvort það væri skynsamlegt að sameina á einum stað í ráðuneytinu, á einu stjórnsýslusviði, þróunarsamvinnuna og friðargæsluna og það kom fram, m.a. hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að hann teldi að það væri óráðlegt að hafa þann háttinn á. Það mundi alltaf kalla á gagnrýni um að verið sé að blanda öðrum hagsmunum inn í þróunarsamvinnuna.

Mín skoðun er sú að þróun og friður eða þróun og kannski það að vera laus við átök sé mjög samtengt. Þar sem eru átök er mjög erfitt að koma við þróun. Þar sem er skortur á þróun verða gjarnan átök þannig að þetta hlýtur alltaf að fara talsvert saman og ég hefði almennt talið að það væri hagfelldara og væri kannski líklegra til þess að skapa sátt um m.a. friðargæsluna að hún tengdist meira þróunarmálum hjá okkur og þróunarsviðinu en öryggis- og varnarmálasviðinu af því að við viljum að friðargæsla okkar sé borgaraleg í eðli sínu. Þess vegna færi vel á því að skoða þetta saman þannig að við værum í rauninni að vinna að friði og þróun sem heildstæðu máli í stað þess að tengja friðargæsluna — sem væri þá hinn kosturinn — alþjóða- og öryggismálasviðinu þar sem við erum m.a. með varnarmálaskrifstofuna. Það var fyrst og fremst það sem mér hefur gengið til með því að tengja þetta saman, að það gæti skapað meiri sátt um friðargæsluna og við gætum þá horft á friðargæsluna meira sem tæki í þágu þróunar. En allt er þetta auðvitað opið til umræðu.

Annað sem hér hefur verið rætt um eru starfsmannamálin og þær sérreglur sem verða í þessum lögum um starfsmenn Þróunarsamvinnustofnunar. Það kom fram að nefndin hefði fallist á rökin fyrir þessum sérreglum en þó er greinilegt að það er svona með vissum semingi vegna þess að það hefur auðvitað komið fram hjá nefndarmönnum að best væri að hinar almennu reglur starfsmannalaga gætu gilt um þessa starfsmenn eins og aðra, að viðfangsefnin þarna væru ekki svo sérstök að það þyrfti alveg sérstakan vinnurétt fyrir þetta fólk.

Ástæðan fyrir því að það er mikilvægt að geta ráðið fólk tímabundið inn í þróunarsamvinnuna og lengur en í tvö ár í senn, eins og starfsmannalögin kveða á um, er að það er mikilvægt að geta kallað inn í þróunarsamvinnuna fólk utan úr atvinnulífinu, fólk sem er í öðrum störfum, lækna, hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða, sjúkraflutningamenn, alls konar fólk sem vinnur við önnur störf og er kannski ekki tilbúið að taka sig upp og fara í þessi störf bara til tveggja ára ef ekki er lengri tími í boði. Sumir eru auðvitað tilbúnir að koma inn í þetta bara í eitt ár eða tvö ár og það er engri loku fyrir það skotið að þannig verði það áfram, en að það verði sköpuð þessi heimild og þessi möguleiki að það geti verið ráðningar til fimm ára til þess að fá fólk til að starfa í þróunarsamvinnu. Ég tel að það sé styrkur þróunarsamvinnu okkar og ég tel að það sé styrkur friðargæslu okkar að fá fólk utan úr samfélaginu, utan úr þjóðlífinu sem er að sinna öðrum störfum til að koma og starfa að þessum málum einhvern tíma, lengri eða skemmri. Það skapar þekkingu úti í samfélaginu almennt, það skapar stuðning við þetta, það er gríðarlega mikilvægt fyrir málaflokkinn að það sé hægt að hafa þennan hátt á og þess vegna þarf þessi heimild að vera til staðar, að við getum ráðið fólk lengur en í tvö ár í ákveðnum tilvikum þó að hitt sé auðvitað enn þá í gildi, að það sé hægt að hafa það skemur.

Síðan hvað það varðar sem líka hefur komið hér upp hvort það eigi að skapa þennan gagnveg milli ráðuneytisins og Þróunarsamvinnustofnunar þannig að það sé hægt að ráða fólk frá Þróunarsamvinnustofnun tímabundið inn í utanríkisráðuneytið án auglýsingar þá er hugsunin þar kannski fyrst og fremst sú að það séu gagnvegir á milli ráðuneytisins og stofnunarinnar, á milli tvíhliða þróunarsamvinnunnar, sem er sinnt af stofnuninni, og marghliða þróunarsamvinnunnar sem er í utanríkisráðuneytinu þannig að það sé hægt að nýta þá þekkingu sem fólk sem er í tvíhliða þróunarsamvinnu ávinnur sér í ráðuneytinu.

Þegar við tölum um „án auglýsingar“ megum við ekki gleyma því að fólkið sem vinnur í utanríkisráðuneytinu hefur allt verið ráðið til starfa samkvæmt auglýsingu. Fólkið sem vinnur hjá Þróunarsamvinnustofnun hefur líka allt verið ráðið til starfa samkvæmt auglýsingu þannig að allt þetta fólk hefur verið ráðið á grundvelli auglýsinga til sinna starfa. Það er bara verið að búa til þessa víxlverkun á milli stofnunar og ráðuneytis, ekki svo að það sé verið að taka þetta fólk fram hjá kerfinu með einhverjum hætti. Eftir sem áður er auglýsingaskylda á störfum hjá ráðuneytinu og hjá Þróunarsamvinnustofnun en það er bara verið að búa til þennan gagnveg sem ég held að sé gríðarlega mikilvægur til þess að nýta sem best þekkingu og reynslu þessa fólks.

Það var spurt hér um einkaaðila og hlutverk þeirra. Það er auðvitað ekkert sem bannar að það séu gerðir samningar um tiltekin verk við einkaaðila í þessu, en ég tek undir það sem kom fram hjá hv. þm. Árna Páli Árnasyni, að það má auðvitað ekki vera á forsendum einkaaðilanna, það verður þá að vera á forsendum aðstoðarinnar og þess sem menn ætla sér að ná fram með aðstoðinni en það er hægt að hafa margvíslegan hátt á varðandi kaup á sérþekkingu eða þjónustu.

Það var spurt eftir því hvað liði áætlun um þróunarsamvinnu og hvort hún kæmi fram í haust og hvaða áform yrðu þá uppi um hvenær við ætluðum að ná 0,7% hlutfallinu. Þegar ég talaði við 1. umr. um frumvarpið sagði ég að ég stefndi að því að leggja þessa áætlun fram núna í haust en það gefur eiginlega augaleið að það verður einhver seinkun á því bara vegna orðanna hljóðan í sjálfum lögunum vegna þess að lögin, eins og þau munu þá væntanlega líta út eftir að þau hafa verið samþykkt hér á þingi, gera ráð fyrir því að þróunarsamvinnunefndin eigi að koma að þeirri vinnu með ráðuneytinu. Ef hún verður ekki kosin fyrr en — ja, ef bráðabirgðaákvæðið verður um það að núverandi stjórn sitji til 1. nóvember og eftir það taki þróunarsamvinnunefndin við þá er auðvitað ekki hægt að vinna áætlunina til að leggja fram hér í þinginu fyrir þann tíma, ef það á að fara eftir lögunum eins og þau munu þá líta út. Við verðum bara að skoða það núna hvenær við gætum lagt fram slíka áætlun miðað við að þróunarsamvinnunefndin og samstarfsráðið sé komið á laggirnar sem eiga að koma að þeirri vinnu af hálfu löggjafans og af hálfu hinna frjálsu félagasamtaka.

Þetta er kannski það sem ég held að rétt sé að ég segi um þetta mál á þessu stigi en enn og aftur þakka ég fyrir góða umræðu hér og góða vinnu í nefndinni og mikilvægi þess að um þetta mál náist góð sátt.

Ég vil að lokum segja að þó að þetta frumvarp sé ekki mikið að vöxtum, sé tiltölulega fáar greinar, enda eru þetta rammalög sem eru fyrst og fremst til þess að marka stjórnsýslulegan ramma utan um þróunarsamvinnuna, þá held ég að þetta marki þó nokkur tímamót ef þetta verður að lögum vegna þess að það er verið að tengja Alþingi miklu betur inn í alla vinnu í þróunarsamvinnu en verið hefur. Það er verið að gefa Alþingi miklu meiri sess í stefnumótuninni sem varðar þróunarsamvinnu, bæði auðvitað með þróunarsamvinnunefndinni, sem kemur þá bæði að tvíhliða og marghliða þróunarsamvinnu, en hingað til hefur aðkoma Alþingis verið algjörlega einskorðuð við tvíhliða þróunarsamvinnuna, og hins vegar með þessari áætlun til fjögurra ára sem er gert ráð fyrir að leggja fyrir Alþingi og skýrslugjöf frá utanríkisráðherra sem ekki hefur verið hér í þinginu. Það hefur verið mjög takmörkuð umræða á Alþingi Íslendinga um þróunarsamvinnu þrátt fyrir þau auknu fjárframlög sem eru að fara í málaflokkinn núna þessi árin.

Aðkoma Alþingis er því að aukast verulega við þetta, gegnsæi í málaflokknum er að aukast mjög verulega, og ég vil leyfa mér að segja um leið fagleg vinnubrögð og eftirlit með málaflokknum og þeim fjármunum sem í hann fara mun aukast ef þetta verður að lögum.