135. löggjafarþing — 118. fundur,  4. sept. 2008.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands.

442. mál
[15:48]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Á einu atriði vildi ég vekja máls, á jákvæðum nótum og það lýtur að ágreiningi sem hefur verið okkar í milli, annars vegar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og stjórnarmeirihlutans hins vegar, er varðar hvar eigi að koma friðargæslunni fyrir í ráðuneytinu og hvort eigi að tvinna hana rækilega saman við þróunarmálin, þróunarsamvinnumálin. Hv. þm. Árni Páll Árnason vék að þessu í ræðu sinni og sömuleiðis hæstv. utanríkisráðherra.

Við höfum haft um þetta miklar efasemdir og erum þá að horfa til reynslunnar ekki, aðeins til margra ára heldur líka til síðustu mánaða. Við höfum verið mjög gagnrýnin á það hvaða áherslur núverandi ríkisstjórn og núverandi hæstv. utanríkisráðherra hafa haft gagnvart NATO og friðargæslunni. En nú er verið að tala um að færa þessa starfsemi inn á, hvað eigum við að kalla það, nýjar forsendur? Að reka hana á nýjum forsendum. Og þá er ég að segja að málið kann að horfa öðruvísi við.

Ég fagna því sem fram kom í máli hæstv. utanríkisráðherra að þessi mál væru núna öll opin til umræðu. Ég hvet til þess að við fylgjum því þá eftir í utanríkismálanefnd, að taka þetta skipulag og þau markmið sem við rekum friðargæslu á og þróunarstarfið til endurskoðunar og til frekari umræðu.