135. löggjafarþing — 118. fundur,  4. sept. 2008.

ársskýrsla Ríkisendurskoðunar 2007.

626. mál
[15:52]
Hlusta

Frsm. fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er ársskýrsla Ríkisendurskoðunar fyrir árið 2007 til umræðu og framlagningar en umrædd ársskýrsla kom út á vormánuðum í aprílmánuði. Ársskýrslan hverju sinni er nokkuð víðfeðm og fjallar um starfsemi Ríkisendurskoðunar á því ári sem hún tekur til, eða ársins 2007.

Sigurður Þórðarson, þáverandi ríkisendurskoðandi, fylgdi þessari skýrslu úr hlaði og var þetta síðasta ársskýrsla hans. En eins og alþjóð veit, virðulegi forseti, þá lét Sigurður Þórðarson af störfum á sumarmánuðum og Sveinn Arason var ráðinn ríkisendurskoðandi af hálfu forsætisnefndar og Alþingis eftir auglýsingu um starfið og yfirferð á fjölda umsókna sem bárust um starfið.

Ég vil nota tækifærið hér og ítreka þakkir bæði fjárlaganefndar og annarra til handa Sigurði Þórðarsyni fyrir mjög ánægjulegt samstarf á umliðnum árum og áratugum og einnig vil ég óska Sveini Arasyni velfarnaðar í nýju starfi. Sveinn Arason hefur starfað um árabil hjá Ríkisendurskoðun þannig að hann gerir sér fulla grein fyrir því hvað þar fer fram og fjárlaganefnd mun á komandi mánuðum eiga fjölþætt samstarf við Svein Arason ríkisendurskoðanda.

Ársskýrslan var kynnt í fjárlaganefndinni í maímánuði og allir hv. þingmenn fjárlaganefndar skrifuðu undir sameiginlegt nefndarálit og mun ég sem formaður fjárlaganefndar gera hér grein fyrir því áliti, virðulegi forseti. Síðan munu aðrir fjárlaganefndarmenn, m.a. varaformaður fjárlaganefndar, hv. þm. Kristján Þór Júlíusson, fjalla enn frekar um skýrsluna og aðrir nefndarmenn í fjárlaganefnd munu fylgja hér eftir ýmsum atriðum úr skýrslunni.

Ég mun nú lesa upp álit fjárlaganefndar en undir það skrifa auk mín hv. þm. Kristján Þór Júlíusson, Guðbjartur Hannesson, Jón Bjarnason, Illugi Gunnarsson, Bjarni Harðarson, Ásta Möller, Guðjón Arnar Kristjánsson, Ármann Kr. Ólafsson, Steinunn Valdís Óskarsdóttir væntanlega og Björk Guðjónsdóttir. (Gripið fram í.) Ég held að allir 11 hv. þingmenn fjárlaganefndar hafi gengið frá þessu áliti. En það verður þá að leiðrétta hafi það ekki verið á vormánuðum.

Álitið hljóðar svo, með leyfi forseta:

Fjárlaganefnd hefur fjallað um ársskýrslu Ríkisendurskoðunar 2007 á fundi og fengið ríkisendurskoðanda til fundar við sig.

Skýrslan er í senn starfsskýrsla til þingsins og samantekt á upplýsingum um þau mál sem stofnunin hefur fjallað um á árinu 2007 og telur rétt að kynna Alþingi.

Ríkisendurskoðun starfar á vegum Alþingis og endurskoðar ríkisreikning og reikninga þeirra aðila sem hafa með höndum rekstur og fjárvörslu á vegum ríkisins. Enn fremur annast stofnunin eftirlit með framkvæmd fjárlaga og er þingnefndum til aðstoðar við störf er varða fjárhagsmálefni ríkisins. Ríkisendurskoðun er sjálfstæð og óháð stofnun sem starfar í umboði Alþingis. Forsætisnefnd getur þó ýmist að eigin frumkvæði eða samkvæmt óskum þingmanna krafist skýrslna um einstök mál er falla undir starfsemi Ríkisendurskoðunar.

Eins og skýrslan ber með sér eru viðfangsefnin fjölbreytt. Stofnunin varði 57% allra virkra vinnustunda til fjárhagsendurskoðunar, 16% til stjórnsýsluendurskoðunar, 10% til innra eftirlits, 7% til endurskoðunar upplýsingakerfa, 10% til annarra verkefna, m.a. lögfræðilegra umsagna, gæðaeftirlits og aðstoðar við önnur svið stofnunarinnar.

Það er mikilvægt fyrir fjárlaganefnd og þingmenn að fá með skýrslu sem þessari innsýn í eftirlitsstarfsemi Ríkisendurskoðunar en slíkar upplýsingar eru til þess fallnar að styrkja það sjálfstæða eftirlitshlutverk sem Alþingi hefur gagnvart framkvæmdarvaldinu.

Svo mörg voru þau orð í áliti fjárlaganefndar sem hún stendur saman að og er það nú oft þannig að fjárlaganefndin stendur samstiga að álitsefnum og álitsgerðum eins og þessum.

Ég vil ítreka hér kveðjur til handa þáverandi ríkisendurskoðanda sem lagði fram ársskýrsluna á vormánuðum, Sigurði Þórðarsyni, og óska nýjum ríkisendurskoðanda, Sveini Arasyni, velfarnaðar í sínum störfum. Ég vil nota tækifærið og þakka Ríkisendurskoðun og starfsfólki þess samstarfið og óska eftir góðu samstarfi héðan í frá sem hingað til varðandi þau störf sem Ríkisendurskoðun vinnur að fyrir Alþingi og ríkisreksturinn í heild sinni.