135. löggjafarþing — 118. fundur,  4. sept. 2008.

ársskýrsla Ríkisendurskoðunar 2007.

626. mál
[16:19]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu skýrsla Ríkisendurskoðunar fyrir árið 2007. Eins og kom fram í ræðu hv. þm. Gunnars Svavarssonar fjallaði fjárlaganefnd um skýrsluna á fundum sínum í maí sl. og fékk þá ríkisendurskoðanda til fundar við sig. Þess má geta að þetta var síðasti fundur Sigurðar Þórðarsonar ríkisendurskoðanda með fjárlaganefnd, eftir því sem ég kemst næst. Ég verð að segja að samstarf fjárlaganefndar og Ríkisendurskoðunar hefur verið með miklum ágætum í gegnum tíðina. Það á við um alla starfsemi stofnunarinnar og ekki síst ríkisendurskoðanda sjálfan sem hefur verið fylginn sér, fylgt sannfæringu sinni og réttlætiskennd sem hefur auðvitað stundum þýtt að álit stofnunar hans hafa e.t.v. ekki alltaf fallið öllum í geð.

Einkennisorð og megingildi Ríkisendurskoðunar sem stofnunar eru óhæði, hlutlægni, hæfni og trúverðugleiki. Þessi orð lýsa þeim verkum sem stofnunin lætur frá sér og þar leggja sig allir fram við að standa undir þessum einkennisorðum. Sigurður Þórðarson ríkisendurskoðandi hefur verið sterk fyrirmynd í þessum efnum. Reyndar lýsa þessi einkennisorð ekki síst honum sjálfum. Ég vil nota tækifærið og þakka Sigurði Þórðarsyni, fráfarandi ríkisendurskoðanda, sérlega ánægjulegt samstarf í gegnum árin og um leið óska ég nýjum ríkisendurskoðanda, Sveini Arasyni, farsældar í störfum sínum. Ég hlakka til samstarfs við hann m.a. á vettvangi fjárlaganefndar.

Ríkisendurskoðun er undirstofnun Alþingis en er sjálfstæð í störfum sínum. Hennar viðfangsefni snúa m.a. að því að endurskoða ríkisreikning og reikninga opinberra stofnana. Enn fremur annast stofnunin eftirlit með framkvæmd fjárlaga og er þingnefndum til aðstoðar við störf er varða fjárhagsleg málefni ríkisins.

Það hlutverk sem snýr einna helst að daglegum störfum þingmanna eru skýrslur sem gefnar eru út á vegum stofnunarinnar. Þær eru þáttur í því að hafa eftirlit með rekstri þeirra aðila sem fara með opinbert fé, hvort heldur í beinum ríkisrekstri eða með samningum þar um. Markmiðið er að hafa eftirlit með því að opinberu fé sé varið á hagkvæman, skilvirkan og árangursríkan hátt, eins og segir á heimasíðu stofnunarinnar. Þessu tengdar eru þær áhugaverðu upplýsingar sem koma fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar um að 70% ábendinga og athugasemda hennar við innra eftirlit og stjórnsýsluendurskoðun hafi verið teknar til greina samkvæmt úttekt stofnunarinnar sjálfrar sem þýðir að það er trúverðugleiki í störfum stofnunarinnar. Það er tekið mark á því sem hún segir. Það leiðir til bóta í ríkisrekstri og til þess að betur sé farið með opinbert fé.

Skýrslan sem hér er fjallað um er ársskýrsla til þingsins um verkefni sem stofnunin hefur haft til umfjöllunar á árinu 2007. Skýrslan er umfangsmikil og lýsir mikilli afkastagetu Ríkisendurskoðunar. Það var áhugavert að sjá í skýrslunni að stofnunin sendi árlega frá sér um 10 þúsund síður af upplýsingum í formi ársreikninga og endurskoðunarskýrslna. Stjórnsýsluúttektir eru hluti af starfsemi stofnunarinnar og í skýrslunni kemur fram að um 16% af tíma starfsmanna stofnunarinnar fór í stjórnsýsluendurskoðanir. Það eru þær skýrslur sem hafa reynst okkur mjög vel og hafa verið mjög gagnlegar. Það kemur einmitt fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar sem við fjöllum hér um hverjar áherslur áranna 2007–2009 eru sem sýnir hve umfangsmikil starfsemin er hjá ríkisendurskoðanda. Þær áherslur sem stofnunin leggur í starfi sínu frá 2007–2009 eru vinnumarkaðsmál, fjölskyldu- og velferðarmál, löggilt dómskerfi, erlend efnahagsaðstoð og friðargæsla, utanríkisþjónusta, opinber fjármála- og stjórnsýsla, sjávarútvegsmál og rannsóknir og þróun. Svo segir jafnframt, með leyfi forseta:

„Einkum verði hugað að því hvernig staðið er að árangursstjórnun, framleiðni vinnuafls og fjármagns, málsmeðferð og afgreiðslutíma, stjórnskipulagi málaflokka, verka- og ábyrgðarskiptingu, gæðaþjónustu og starfsmannastjórnun.“

Það er alveg ljóst að starfsmenn stofnunarinnar þurfa að búa yfir viðamikilli þekkingu á þessum málum. Ég tek undir með hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni að það er ákveðið áhyggjuefni að svo virðist sem sótt sé í það hæfa starfsfólk sem er starfandi hjá Ríkisendurskoðun frá öðrum stofnunum eða aðilum sem geta þá boðið betri kjör. Það kemur fram í þessari miklu starfsmannaveltu.

Forsætisnefnd hefur beint tilmælum til þingnefnda að fjalla um efni skýrslu Ríkisendurskoðunar í þeim málefnum er varða verkefnissvið viðkomandi nefnda. Eitt af mikilvægari hlutverkum þingmanna er að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Skýrslur og athuganir Ríkisendurskoðunar eru þar mikilvæg gögn og hafa gefið tilefni til umræðu, aukið aðhald í ríkisrekstri og almennt í meðferð opinbers fjár. Með tilmælum forsætisnefndar eru tengd enn frekar saman eftirlitshlutverk Ríkisendurskoðunar og stjórnmálalegt hlutverk Alþingis með opinberum rekstri og er það vel. Þá er einnig vert að nefna að skýrslur og stjórnsýsluúttektir til Ríkisendurskoðunar virðast hafa langan líftíma eins og kemur fram í ársskýrslunni. Það markast m.a. af því að þær eru aðgengilegar á heimasíðu og eru gagnlegar þegar rætt er um tiltekin málefni. Má þar m.a. nefna úttekt Ríkisendurskoðunar á þjónustu við aldraða sem kom út í nóvember 2005 sem er innan þess geira orðin hálfgerður „klassíker“, ef svo má að orði komast, þegar rætt er um málefni aldraðra og þá þjónustuþætti sem þar heyra undir. Sama má segja um skýrslu Háskóla Íslands í apríl 2005. Það er líka ánægjulegt til þess að vita að skýrslur Ríkisendurskoðunar eru notaðar sem námsefni í háskólum landsins, m.a. í opinberri stjórnsýslu og reynast afar gagnlegar þar.

Ég ætla ekki að hafa þetta innlegg mikið lengra en ég vil að lokum endurtaka þakkir til Sigurðar Þórðarsonar, fráfarandi ríkisendurskoðanda, fyrir ánægjulegt samstarf á liðnum árum og jafnframt fylgja góðar óskir honum til handa í framtíðarviðfangsefnum hans.