135. löggjafarþing — 118. fundur,  4. sept. 2008.

Póst- og fjarskiptastofnun.

522. mál
[16:41]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Sú breyting á lögum um Póst- og fjarskiptastofnun sem hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir, formaður samgöngunefndar, hefur gert grein fyrir lýtur, eins og kom fram í máli þingmannsins, fyrst og fremst að skipan úrskurðarnefnda og að ýmsum innri eftirlitsferlum og stjórnsýsluferlum innan póst- og fjarskiptamála.

Eins og kom fram í framsögu hv. þingmanns ritar hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í samgöngunefnd, undir nefndarálitið með fyrirvara. Því miður er hv. þm. Árni Þór Sigurðsson veikur og gat því ekki fylgt fyrirvara sínum úr hlaði. Ég mun því aðeins koma inn á hann og einnig önnur atriði sem snerta þetta mál.

Með lögum um póstþjónustu sem samþykkt voru árið 2002, að mig minnir, var annars vegar verið að gefa fyrirtækinu Íslandspósti ákveðna lagaumgerð og einnig póstþjónustunni í landinu. Einn mikilvægasti þáttur þess var að skilgreina svokallaða alþjónustu. Reyndar sneri lagabálkurinn allur í heild sinni að markaðsvæðingu póstþjónustunnar og hvernig ríkið gæti tryggt lágmarksþjónustu með lögum.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs vorum ekki sammála þeirri vegferð sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins var þá að fara í við að markaðsvæða póstþjónustuna í landinu. Við lögðum áherslu á að póstþjónustan væri hluti af almennri grunnþjónustu sem ætti að veita öllum jafnt á landsgrunni og við töldum að verið væri að fara inn á mjög hættulega braut með því að markaðsvæða póstþjónustuna eins og þarna var lagt til. Engu að síður varð þetta nú staðreynd og það má eiginlega segja að síðan hafi póstþjónusta í landinu að því er virðist markvisst verið skorin niður af hálfu Íslandspósts sem fer með þetta verkefni. Sumu hefur líka verið breytt, þjónustunni hefur verið breytt á ýmsan veg, sumu til bóta en öðru ekki.

Það sem ég ætla að gera að umtalsefni hér lýtur ekki hvað síst að úrskurðarnefndunum. Þessar úrskurðarnefndir áttu að vera eins konar trygging fyrir því að póst- og fjarskiptafyrirtækin sinntu þeim kvöðum, m.a. alþjónustukvöðum, sem lögin kveða á um, þau væru ekki að skera niður eða breyta þjónustunni sem kæmi niður á íbúum landsins án þess að þær ættu þar einhverja aðkomu að.

Ég minni á að í framsögu lagði þáverandi samgönguráðherra, Sturla Böðvarsson, einmitt áherslu á þau nýmæli sem þessu fylgdi og verið væri að tryggja landsmönnum. Með leyfi forseta, sagði hæstv. þáverandi samgönguráðherra, Sturla Böðvarsson, orðrétt:

„Þá sný ég mér að því frumvarpi sem hér er um að ræða. Markmið og nýmæli þessa frumvarps til laga um póstþjónustu er í fyrsta lagi að kveða skýrar á um rétt landsmanna til lágmarkspóstþjónustu, í samræmi við fyrrgreinda tilskipun Evrópusambandsins, og er í því sambandi tekið upp hugtakið alþjónusta í stað hugtaksins grunnpóstþjónusta sem er notað í núgildandi lögum. Með alþjónustu er átt við póstþjónustu sem landsmenn skulu hafa aðgang að á jafnræðisgrundvelli.“

Áfram segir í ræðu þáverandi samgönguráðherra þegar hann mælti fyrir frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Í þriðja lagi eru tekin inn í frumvarpið ákvæði varðandi kröfur um gæði póstþjónustunnar og ákvæði um söfnun pósts og útburð alla virka daga alls staðar á landinu. Lagt er til að fært verði í lög að póstsendingar innan marka alþjónustu skuli bornar út alla virka daga alls staðar á landinu nema kringumstæður eða landfræðilegar aðstæður komi í veg fyrir útburð. Slíkar kringumstæður geta verið ófærð og óveður eða sérstakar landfræðilegar aðstæður.“

Í umræðunni sem fylgdi á eftir eins og í ræðu formanns samgöngunefndar, hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar, var ítrekað lögð áhersla á þetta jafnræðissjónarmið að póstur skyldi borinn út fimm daga vikunnar alls staðar á landinu nema þar sem ófærð hamlaði eða ekki væri vegasamband. Í því sambandi voru m.a. nefndir staðir eins og Árneshreppur og Grímsey en ekki þar sem vegir eru ruddir með eðlilegum hætti.

Það sem gengið hefur á síðan er það að Íslandspóstur hefur ítrekað lokað póstafgreiðslum. Nú síðast tilkynnti hann um fækkun póstburðardaga, sem hafði áður verið fjölgað í fimm, í þrjá og einnig voru tilkynningar líka um lokanir á póstafgreiðslum. Það er sama hvernig sveitarfélög og íbúar hafa mótmælt og viljað ræða þetta þá hefur það verið mjög erfitt. Ég er t.d. með eitt dæmi um samskipti við íbúa Reykhólahrepps í Vestur-Barðastrandarsýslu þar sem hafði verið tilkynnt eða ekki tilkynnt, það er ekki einu sinni svo að það sé ljóst hverjar eru boðleiðir frá Íslandspósti til neytenda og yfirleitt frétta neytendur þessarar þjónustu það á skotspónum hvaða áform eru uppi hjá almannaþjónustufyrirtæki eins og Íslandspósti um breytingar á þjónustu þannig að aðkoma að því er mjög erfið. En það kom þessi tilkynning um, ef við tökum dæmið um Barðastrandarsýslu, að fækka ætti póstburðardögum úr fimm í þrjá og sömuleiðis loka póstafgreiðslum, m.a. í Króksfjarðarnesi, þannig að þá yrði Reykhólahreppur algjörlega afgreiðslulaus hvað þetta varðaði og þar yrði engin pósthirða.

Nú er kveðið á um í lögunum hver þjónusta, m.a. pósthirðing, skuli vera að lágmarki. Ef þetta næði fram að ganga væri engin póstafgreiðsla á svæðinu frá Búðardal til Patreksfjarðar. Þarna eru samfélög, þau eru kannski ekki öll mjög þéttbýl en þau eiga öll rétt á sinni þjónustu á jafnræðisgrunni eins og kveðið er á um í lögunum og eins og kveðið er á um í stjórnarskrá Íslands. Það sér hver maður að aðför að samfélögum með þeim hætti að skera niður þjónustu — við upplifðum þetta í þjónustu Landssímans þegar hann var seldur, viðgerðarþjónusta og önnur viðbragðsþjónusta hvað símaþjónustu varðaði var lögð niður í heilu landshlutunum og eftir stóðu samfélögin og þurftu að sækja slíka þjónustu með mun dýrari hætti en áður og þannig er hægt að mola niður samfélög með því að skera af þeim þessa þjónustu.

Ég vil leyfa mér, herra forseti, að lesa síðasta bréfið sem sveitarstjóri Reykhólahrepps sendi hæstv. samgönguráðherra Kristjáni Möller sem fer með þessi mál, öll póstmál eru á ábyrgð ráðherra og þó að þetta sé fyrirtækið Íslandspóstur þá er það í 100% eigu ríkisins og samgönguráðherra fer með það hlutabréf. Aðgerðir sem gerðar eru af hálfu Íslandspósts eru því að sjálfsögðu á ábyrgð ráðherrans. Ég minnist þess að á Alþingi árið 2002 þegar þessi lög voru sett þá talaði einmitt þáverandi þingmaður, Kristján Möller, þá stóðum við hér hlið við hlið og vörðum póstþjónustuna í landinu. Þá hafði hann ekki síður en ég uppi stór orð um áform lokunar á pósthúsum hvort sem það var í Varmahlíð, á Hofsósi eða hvar það var á landinu. Þá var þáverandi þingmanni, Kristjáni Möller, fullkomlega ljóst hver bar ábyrgð því að hann beindi að sjálfsögðu orðum sínum til þáverandi samgönguráðherra, Sturlu Böðvarssonar. Með sama hætti er hann nú ábyrgur.

Ég ætla lesa sem dæmi um þessi bréfaskipti bréf til samgönguráðherra Kristjáns Möllers, dags. 26. ágúst á Reykhólum árið 2008, með leyfi forseta:

„Efni: Fækkun dreifingardaga í hluta Reykhólahrepps og lokun einu póstafgreiðslunnar í sveitarfélaginu.

Ágæti samgönguráðherra. Enn og aftur er vegið að lífsskilyrðum á landsbyggðinni. Sú stefna stjórnvalda að gera sitt besta til að allt landið geti verið byggilegt virðist vega létt á móti hagsmunum hluthafa Íslandspósts hf. Hagnaður Íslandspósts undanfarin ár hefur mælst í hundruðum milljóna króna. Eins og þér er kunnugt um eru uppi áform um að fækka póstburðardögum í hluta Reykhólahrepps úr fimm í þrjá á viku. Mun þetta taka gildi frá 1. sept. 2008 að telja. Sömuleiðis er búið að ákveða að leggja niður einu póstafgreiðsluna í sveitarfélaginu sem er í Króksfjarðarnesi. Við mótmæltum, en árangurslaust, og bentum á að flytja bæri póstafgreiðsluna úr dreifbýlinu og í þéttbýliskjarnann sem er hér á Reykhólum. Hér búa um 130 manns í þorpinu en engin póstafgreiðsla er hér. Hér eru fyrirtæki í fullum rekstri og við þurfum á þessari þjónustu að halda, hvað sem aðrir halda. Hluta af kostnaði við póstdreifingu er velt yfir á móttakendur póstsins, t.d. á einum bæ er póstkassinn í 7 km fjarlægð frá heimilinu, þar sem ein ekkja býr og þarf hún að aka 14 km til að tæma póstkassann sinn, eða til að komast að því að hann er tómur. Hingað til hefur þessi kona fengið póstinn sinn heim eins og aðrir. Við ætlum að leita réttar okkar í gegnum dómstóla gerist þess þörf. Við teljum að þetta stangist á við lögin og reglugerðin virðist ekki vera alveg í takt við lögin og ef ræður ráðherra og flutningsmanns frumvarpsins á sínum tíma eru skoðaðar er þetta ekki í anda þeirra. Með bréfi þessu viljum við biðja þig vinsamlegast um að fresta gildistöku þessara breytinga í að minnsta kosti tvo mánuði á meðan við fáum tíma til að fara ofan í þessi mál með lögfræðingum okkar.“

Það er ansi hart þegar íbúar í fámennum sveitarfélögum verða að fara að leita til lögfræðinga til að sækja rétt sinn um stjórnarskrárvarið jafnræði.

Fleiri sveitarfélög hafa síðan sent erindi, Vesturbyggð, Tálknafjarðarhreppur, Skagafjörður hafa sent erindi til að mótmæla þessum niðurskurði sem beitt er með einhliða hætti. Þeim er jú bent á að kæra fyrst til Póst- og fjarskiptastofnunar, sem virðist fyrst og fremst ætlað að vera afgreiðslustofnun, a.m.k. hefur hún ekki gert athugasemdir við þennan niðurskurð þó að lögin kveði að mínu mati á um allt annað. Síðan er hægt að kæra til úrskurðarnefndar og ég verð bara að segja að mér finnst orðalagið í úrskurðinum frá henni sem hefur komið um þessi mál oft hálfniðurlægjandi. Þegar beðið er um að bíða með aðgerðir — ég spurði að þessu í dag en ráðherra hefur ekki einu sinni svarað bréfinu sem honum var sent 26. ágúst og laut að lokun.

Hvað varðar það sem snýr að úrskurðarnefndinni í frumvarpinu og þessu nefndaráliti þá virðist þjónustan ekki skipta neinu máli í þessari nefnd enda virðist henni fyrst og fremst vera ætlað að taka á málum fyrirtækja, fyrirtækja í samkeppnisrekstri. Aðgengi og aðkoma einstaklinga, almennings varðandi þessa þjónustu er alls ekkert nefnd. Ég get rakið og hef afrit af fleiri bréfaskiptum þar sem það kemur skýrt fram að henni sé ekki ætlað að hafa afskipti af málinu.

Það þarf ýmislegt að taka til fremur en að skoða þessar úrskurðarnefndir. Ég tel reyndar að það eigi ekki að vera nein úrskurðarnefnd, það er skoðun mín að þetta eigi bara að vera hreint og klárt á ábyrgð ráðherra. Ráðherra er með 100% ábyrgð á Íslandspósti, það er ákvörðun Alþingis að þessi þjónusta skuli veitt, grunnþjónusta á jafnræðisgrunni fyrir alla, og það á bara að standa við það. Ef aðilar sem eru með þessa þjónustu vilja breyta þar frá eða vafi leikur á um túlkun, þá er eins gott að það komi til kasta Alþingis og Alþingi kveði bara upp úr um það hvaða þjónusta skuli veitt.

Frú forseti, nei, herra forseti. Ég er svo vanur því að hafa frú og hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir hafði sagt mér að hún mundi hugsanlega vera í forsetastól þannig að ég var búinn að æfa mig að segja frú forseti. En, herra forseti, að mínu viti er mikilvægara að samgöngunefnd taki allt önnur atriði varðandi póstþjónustu í landinu til meðferðar en þessar úrskurðarnefndir. Reyndar sýnist mér þessi úrskurðarnefnd, hvort sem hún er skipuð af Hæstarétti, og þeir úrskurðir sem ég hef séð frá henni ekki mikils virði. Og síðan er fólki bent á dómstóla.

Það hefur verið aðall okkar að standa vörð um grunnþjónustu í landinu, að allir ættu þar sama rétt. Óneitanlega slær mann sú hugsun — minnugur orða hæstv. forsætisráðherra þegar hann sagði í viðtali að næst á dagskrá væri að selja Íslandspóst — að hér sé verið að undirbúa sölu á Íslandspósti með því að sníða af þá þjónustu, þau svæði sem að hans mati eru óarðbær. Ef póstþjónustan er bara bundin við stórþéttbýlið eykur það seljanleika fyrirtækisins, það er alveg augljóst. Þess vegna er þægilegra að búið sé að gera þetta áður en fyrirtækið hugsanlega verður selt, að skera af almenna póstþjónustu hvort sem það er á Vestfjörðum eða Norðurlandi, Norðausturlandi eða uppsveitum Suðurlands eða annars staðar og þetta sé liður í því.

Herra forseti. Ég tel þess vegna að það sem hér er verið að tala um, úrskurðarnefnd, sé mál sem ætti að vera í allt öðrum farvegi. Póstþjónustan á að vera almannaþjónusta sem allir eiga jafnan rétt á og það á ekki að flokka landið, íbúa þess niður í fyrsta og annars og þriðja flokks fólk eftir grunnpóstþjónustu í landinu eins og verið er að gera. Ég krefst þess og beini þeim eindregnu tilmælum til formanns samgöngunefndar, hv. þm. Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur, að hún taki þetta mál upp með þessum hætti og kalli samgönguráðherrann Kristján Möller inn á nefndarfund og hann svari því hvort það sé í umboði hans sem tekin hafi verið upp svo gjörbreytt stefna í póstmálum eins og íbúar landsins upplifa núna .

Ég minnist þess að fyrrverandi samgönguráðherra lýsti því yfir afdráttarlaust að þessi þjónusta ætti að vera veitt á jafnræðisgrunni. Þess vegna finnst mér það koma úr hörðustu átt að sú gjörbreytta stefna sem Íslandspóstur keyrir núna á vítt og breitt um landið skuli vera á ábyrgð núverandi samgönguráðherra sem stóð hér á sínum tíma með þeim sem hér stendur og barðist fyrir og varði jafnræði póstþjónustunnar í landinu.

Þetta mál verður vafalaust tekið fyrir á fjórðungsþingi Vestfirðinga á morgun á Reykhólum þar sem ég geri ráð fyrir að Vestfirðingar muni taka þetta mál upp föstum tökum. Það er fleira, t.d. hefur póstur verið keyrður heim á bæi, póstur er almennt borinn hér í hús. Nú á að freista þess, eins og kom fram í bréfi sveitarstjórans á Reykhólum, að skilja póstinn eftir út við veg. Afleggjarar geta verið býsna langir. Er það einhver þjónusta? Nei. Hér þarf að taka virkilega fast í taumana og láta ekki bara markaðshyggjuna ráða ferð hjá almannaþjónustufyrirtæki eins og Íslandspóstur á að vera og kalla á samgönguráðherra til ábyrgðar um að standa vörð um þá þjónustu.