135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

virkjun Jökulsár á Fjöllum.

[13:35]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Lykilsetningin í máli hv. þingmanns var sú að fyrir liggur afdráttarlaus vilji Alþingis um það að ekki verði farið með virkjanir í huga í Jökulsá á Fjöllum. Ég og hv. þingmaður höfum áður verið sammála um það, gott ef ég var ekki einn af flutningsmönnum þingsályktunartillögu, sem hv. þingmaður á lof skilið fyrir að hafa flutt mörgum sinnum, um friðun vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum. Ég rifja það líka upp að ég og hv. þingmaður sátum saman í nefnd sem undirbjó stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs og alger samstaða var í þeirri nefnd ef ég man rétt. Í öllu falli liggur það ljóst fyrir að þessi ríkisstjórn hefur engin áform um slíkt. Mér er a.m.k. ekki kunnugt um það. Ekkert slíkt hefur komið inn á mitt borð og allar götur síðan 1994 hef ég verið þeirrar skoðunar að ekki komi til mála að gera þetta.

Ég rifja upp umræður sem þáverandi samgönguráðherra hóf meðan ég sat með honum í ríkisstjórn og hann spurði mig sem umhverfisráðherra, og þótti honum skondið í þessum sal, hvort einhver áform væru uppi um það. Ég sagði að af minni hálfu væru þau engin. Ég skal síðan, sökum gamallar og fornrar vináttu við hv. þingmann, íhuga mjög vel hvort ég eigi orðastað við hæstv . fjármálaráðherra og biðji hann um að senda bréf. Ég er hins vegar fullfær um það sjálfur að koma þeim skilaboðum til Landsvirkjunar.