135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

verðtrygging.

[13:40]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir prýðilega og merkilega spurningu. Fyrir það fyrsta er verðtryggingin birtingarmynd á ástandi og verðbólgu þannig að verðtryggingin sjálf er ekki vandamálið. Það sem skiptir mestu máli er að neytendur hafi val um að taka verðtryggð lán eða óverðtryggð lán og þá með breytilegum vöxtum sem mundi væntanlega í mörgum tilfellum þýða að verðbólgan og uppfærslan á verði peninganna kæmi fram um hver einustu mánaðamót í breytilegum vöxtum þannig að afborganir af lánum yrðu óbærilegar fyrir marga. Verðtryggingin er þannig líka vörn fyrir þá sem taka lánin um leið og hún ver alla okkar sparifjár- og lífeyrissjóðaeign. Umræðan snýst því ekki um það hvort verðtryggingin eigi að vera til staðar eða ekki heldur skiptir mestu máli að neytendur hafi val um verðtryggð lán og óverðtryggð, bæði til skemmri tíma og lengri. Það gagnast bæði skuldurum og þeim sem eiga sparifé og okkur lífeyrissjóðsgreiðendum öllum.

Verðtryggingin mun hins vegar alltaf fylgja krónunni. Hana munum við sjá í þessari mynd á meðan við höldum krónunni úti sem gjaldmiðli okkar. Það má hins vegar vel vera að með einhverjum hætti megi endurskoða fyrirkomulag og samsetningu á verðtryggingu eins og hv. þingmaður spurði um áðan þannig að hún komi með sanngjarnari hætti niður á annars vegar neytendum og hins vegar lánastofnunum. Ég held að umræðan eigi frekar að snúast um það en ekki fara út á þær villigötur hvort hún eigi að vera leyfileg eða ekki. Það er ekki eðlilegt að banna bönkunum að bjóða upp á verðtryggð lán frekar en óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum en mestu máli skiptir að neytendurnir hafi val um hvort tveggja. Þú tekur áhættuna af verðbólguskoti með breytilegum vöxtum eða vilt verja þig með verðtryggingu o.s.frv. en allt er þetta merkileg umræða sem þarf að fara vel í gegnum.