135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

verðtrygging.

[13:44]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Yfirlýsingin fólst ekki í öðru en því að ég sagði að vel mætti vera að endurskoða megi fyrirkomulag og samsetningu á verðtryggingunni sem slíkri en hún er óhjákvæmilegur fylgifiskur fyrirkomulags okkar, peningamála okkar og gjaldmiðils — allt er þetta partur af miklu stærra samhengi. Mestu máli skiptir að neytendurnir, eins og þingmaðurinn nefndi áðan, geti valið um sanngjarnar leiðir og sanngjarnar útfærslur á lánafyrirkomulaginu og að ábyrgðin og áhættan af því að lána peninga dreifist annars vegar á milli fjármálafyrirtækja og hins vegar lántakenda og neytenda. Það hefur hins vegar legið morgunljóst fyrir að ef verðtryggingin væri með einhverjum hætti bönnuð þá mundi það örugglega þurrka upp lánsfjármagn og framboð á lánsfjármagni. Umræðan á því ekki að snúast um það — hv. þingmaður lagði þetta upp með málefnalegum og skynsamlegum hætti hér áðan — heldur um það hvernig hægt er að gera þetta fyrirkomulag enn betra.