135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

síðari för menntamálaráðherra á Ólympíuleikana.

[13:48]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég get ómögulega fallist á það að með spurningum mínum hafi ég komið á framfæri villandi upplýsingum. Þetta voru eingöngu spurningar þannig að þetta er ómerkt hjal sem hér er haldið fram í því efni. En hvað sem því líður þá þakka ég hæstv. menntamálaráðherra fyrir greið svör hvað þetta varðar. Hins vegar er ljóst að hér munar töluverðu varðandi þann kostnað sem hún telur fram og þann kostnað sem komið hefur fram annars staðar opinberlega sem hefur verið talinn mun hærri.

Í annan stað liggur það fyrir að miðað við það sem svör ráðherra leiða af sér var málið ekki kynnt fyrir fram í ríkisstjórn eða að ríkisstjórnin hafi samþykkt þessa ferð. Ég get ekki skilið svörin með öðrum hætti. Og þá get ég ekki skilið það öðruvísi en að ekki hafi verið leitað ódýrra ferðaleiða eða reynt að gæta að því að hafa sem ódýrustu kosti við þessa ferð sem ákveðin var í skyndi með þessum hætti. Það kemur landsliðinu ekkert við eða þeim merka árangri sem það náði.