135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

frumvörp um skipulagsmál og mannvirki.

[13:54]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Heldur þóttu mér þetta rýr svör og mér finnst satt best að segja afar aumt að skjóta sér undan þeim. Hæstv. umhverfisráðherra leggur þessi frumvörp fram og það hlýtur þá að vera ásetningur hennar að landsskipulagið sé með þeim hætti sem það var lagt fram. Hún ein ber ábyrgð á frumvarpinu og það er sorglegt ef ráðherrar þessarar ríkisstjórnar ætla að skjóta sér undan ábyrgð í jafnstórum málum og hér var um að ræða.

Sannleikurinn er sá að frumvörpin þrjú hafa fengið algjöra sérmeðferð á Alþingi. Ég efast reyndar um að nokkur frumvörp hafi fengið jafnítarlega meðferð og þessi þrjú stærstu mál sem umhverfisráðherrann lagði fram á síðastliðnu þingi. Ekki nóg með að þau hafi verið send einu sinni út til umsagnar heldur voru þau aftur send út til umsagnar. Reyndar fór umhverfisnefnd líka til Skotlands í og sjálfu sér bara til að staðfesta það að sama forræðishyggja er ekki í landsskipulagstillögum þar.

Ég lýsi hér yfir fullum sigri Framsóknarflokksins og stjórnarandstöðunnar (Forseti hringir.) í þessu máli og ég fagna því að landsskipulagið kemur ekki aftur fyrir (Forseti hringir.) þetta þing.