135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

frumvörp um skipulagsmál og mannvirki.

[13:55]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Ja hérna hér, hæstv. forseti, hér er greinilega á ferðinni nýliði í hv. umhverfisnefnd. Ég sat þar um árabil og það er ekkert nýtt við það að farið sé mjög vandlega ofan í mjög flókin lagafrumvörp sem þangað koma inn og þau séu tekin til ítarlegrar og vandlegrar og málefnalegrar meðferðar eins og gert hefur verið undir formennsku hv. þm. Helga Hjörvars í umhverfisnefnd í vetur. Það er ekkert óeðlilegt við það. Ég hefði haldið að hv. þingmenn ættu að hafa metnað til þess að vinna vel og faglega og málefnalega í þeim nefndum sem þeir eru kosnir til að vera í og í þeim verkefnum sem þeim er trúað fyrir í stað þess að koma hér upp, afneita sjálfum sér, afneita stefnu sinni, afneita fyrrverandi hæstv. umhverfisráðherrum Framsóknarflokksins og þykjast ekki kannast við eigin stefnu. (Gripið fram í.) Að sjálfsögðu (Gripið fram í.)er hér bara um lagabætur að ræða, vandlega undirbúin frumvörp sem beðið hefur verið eftir árum saman (Forseti hringir.) og það er ekkert annað eftir en að koma þeim í gegn.