135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands.

442. mál
[14:04]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Eins og fram kom við 2. umr. stend ég að nefndaráliti þessu með fyrirvara hafandi gagnrýnt ýmsa þætti frumvarpsins við 1. umr. en í utanríkismálanefnd tókst góð samstaða um viðamiklar breytingar á frumvarpinu sem bæta það verulega. Eftir standa þá af minni hálfu og okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs fyrst og fremst fyrirvarar sem lúta að tvennu, þ.e. annars vegar því að við viljum sjá sem allra skýrastan aðskilnað á milli þróunarsamvinnumálanna annars vegar og annarra verkefna utanríkisráðuneytisins hins vegar. Þar mætti betur gera, jafnvel þó að frumvarpið og sérstaklega breytingartillögurnar sem verða afgreiddar á eftir séu til verulegra bóta í þeim efnum er eftir að tryggja slíkan aðskilnað í innra skipulagi utanríkisráðuneytisins.

Hinn fyrirvarinn lýtur að því að hér eru settar nokkrar sérreglur um starfsmannamál og það eru talsverð frávik í þessu frumvarpi eins og reyndar fleiri frá utanríkisráðuneytinu frá hinum almenna og opinbera vinnumarkaði og á því máli höfum við mikinn fyrirvara að fara að búa til einhvern sérstakan vinnurétt innan utanríkisráðuneytisins.