135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[14:50]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að spyrja hv. formann heilbrigðisnefndar, Ástu Möller, um það af hverju ekki var boðað til fundar í heilbrigðisnefnd í allt sumar. Þetta mál var allt of seint fram komið. Það var sent út til umsagnar með ákaflega óvenjulegum hætti. Margir treystu sér ekki til að veita umsögn með svo skömmum fyrirvara og því var málið sent út aftur eftir að þingi var frestað í vor. Eftir að þing fór heim í vor bárust 16 athugasemdir.

Mig undrar af hverju sá tími sem nefndin hafði og átti að nýta var ekki nýttur til þess að fara betur ofan í málið í sumar. Formaðurinn fór mikinn um að vel hefði verið unnið í nefndinni og því spyr ég: Var tekið tillit til einhverra af þeim athugasemdum sem bárust til að mynda í sumar?