135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[15:09]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta heilbrn. (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti, framhaldsnefndaráliti 1. minni hluta heilbrigðisnefndar og undir þetta álit skrifar ásamt mér hv. þm. Álfheiður Ingadóttir.

En, hæstv. forseti, áður en við förum lengra inn í þessa umræðu þá vil ég spyrja hæstv. forseta hvort hann viti hvar hæstv. heilbrigðisráðherra er staddur núna og hvort hæstv. heilbrigðisráðherra hafi látið vita um komu sína í þingsalinn til þess að fylgjast með umræðum sem hér fara fram um þetta mikilvæga mál.

(Forseti (KÓ): Já mér er kunnugt um það að hæstv. heilbrigðisráðherra er í húsinu og geri þá ráðstafanir um að koma þeim boðum til hans.)

Þakka, hæstv. forseti. Ég tel rétt að hæstv. ráðherra sé hér með okkur í dag og hlusti á umræður og rök og rökstuðning sem fara fram varðandi þetta frumvarp.

Frumvarpið fjallar um grundvallarmál. Það fjallar um það hvert við ætlum að halda með heilbrigðiskerfið en við vitum að það er ásetningur ríkisstjórnarinnar að markaðsvæða heilbrigðisþjónustuna. Það hefur hæstv. forsætisráðherra Geir H. Haarde sagt og lýst yfir í Valhöll.

Erum við þá að færa okkur út úr hinu félagslega kerfi, félagslegri heilbrigðisþjónustu yfir í markaðsvætt umhverfi viðskipta, kaupa og sölu, samanber sjúkratryggingastofnun og hlutverk hennar? Það er fyrst og fremst á þeirri forsendu sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum andmælt frumvarpinu. Það er þeim möguleika að nota ákvæði frumvarpsins til einkavæðingar, til markaðsvæðingar og yfirlýstrar stefnu Sjálfstæðisflokksins sérstaklega, og ríkisstjórnarsamþykkt í þá veru að auka fjölbreytni en í raun og veru að koma heilbrigðisþjónustunni út á markaðstorgið.

Hæstv. forseti. Meginefni þessa frumvarps eru ný lög um sjúkratryggingar og þau byggjast á yfirlýstri stefnu ríkisstjórnarinnar um að styrkja hlutverk ríkisins sem kaupanda heilbrigðisþjónustu, fjölga útboðum og rekstrarformum og koma á fyrirkomulagi kaupa og sölu í heilbrigðisþjónustu. Þessu fylgir að kostnaðargreina skuli einstaka þætti heilbrigðisþjónustu – eins og reyndar er gert nú þegar innan hinnar félagslegu heilbrigðisþjónustu – og taka upp blandaða fjármögnun í heilbrigðiskerfinu. Í grunninn byggist frumvarpið á þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar að fram fari samningar og viðskipti á milli kaupenda og seljenda heilbrigðisþjónustu.

Minni hluti heilbrigðisnefndar telur að með samþykkt frumvarpsins verði gerðar grundvallarbreytingar á heilbrigðisþjónustu landsmanna. Með því að skilgreina ríkið sem kaupanda heilbrigðisþjónustu og veitendur þjónustunnar sem seljendur er verið að innleiða markaðssjónarmið í alla heilbrigðisþjónustu landsmanna. Ákvæði um að kostnaðargreina skuli alla þjónustu styrkir markaðsvæðinguna enda eiga samkeppnislög að gilda nema við ákveðnar aðstæður.

Í frumvarpinu er mælt með því að taka upp blandaða fjármögnun byggða á kostnaðarmati og útboðum. Minni hlutinn setur sig ekki á móti kostnaðarmati og kostnaðargreiningu þar sem slíkt er nothæft og til gagns, en varar eindregið við þeirri kerfisbreytingu í átt til markaðsvæðingar sem hér fylgir með í kaupunum. Með því að búa til innkaupastofnun er komið tæki til að auðvelda einkavæðingu og kollvarpa til frambúðar því félagslega heilbrigðiskerfi sem Íslendingar hafa notið um árabil.

Minni hlutinn telur að ekki eigi með nokkru móti að setja heilbrigðisþjónustu undir lögmál markaðskerfis þar sem hagnaðar- og viðskiptasjónarmið eru grundvöllur starfseminnar. Félagsleg heilbrigðisþjónusta, kostuð af opinberu fé, þar sem allir njóta jafns aðgangs óháð efnahagslegri og félagslegri stöðu, hefur reynst Íslendingum vel. Vissulega er margt sem þarf að breyta, bæta og efla innan íslenskrar heilbrigðisþjónustu, en sú vegferð til einkavæðingar sem þetta frumvarp boðar er ekki rétta leiðin, eins og reynslan bæði hér heima og erlendis sýnir.

Afgreiðsla frumvarpsins kallar því á víðtæka umræðu í samfélaginu og mun vandaðri málabúnað en einkennt hefur aðdraganda þessa frumvarps.

Það má geta þess að í Bretlandi og Svíþjóð hófst þessi vegferð sem við erum að hefja núna upp úr 1990. 1991 í Bretlandi í tíð Margrétar Thatcher og 1992 var það innleitt í Svíþjóð. Í báðum þessum löndum var þetta skilgreint sem tæknilegar breytingar. Það þurfti að breyta stjórnkerfinu, það þurfti að geta það liprara og aðgengilegra og í báðum þessum löndum hefur náðst samstaða um þessar breytingar.

Hv. heilbrigðisnefnd var í kynnisferð í Svíþjóð þar sem við kynntum okkur þann grunn sem Svíar byggja á en nefndin fékk í rauninni ekki miklar upplýsingar um mismunandi stöðu á milli léna, þ.e. hvernig útfærslan á breytingunum hefur svo verið, í raun og veru eftir pólitísku landslagi í mismunandi lénum. En nú er svo komið að þrátt fyrir þá samstöðu sem náðist hjá Svíum hafa umræddar breytingar sem allar voru tæknilegs eðlis meira og minna leitt til þess að þegar borgaraleg ríkisstjórn er við völd í Svíþjóð, þegar borgaraleg stjórn er í landsþinginu þá galopnaðist fyrir einkavæðingu, upp á gátt í Stokkhólmi. Og Stokkhólmur er það módel sem virðist vera fyrirmynd þeirra breytinga sem nú á að gera því í öðrum landsþingum og þá sérstaklega þeim sem eru í dreifbýli hefur framganga einkarekstrar og einkavæðingar ekki verið svo mikil eins og í Stokkhólmi.

Þannig að sá fyrirvari sem við höfum alltaf gert er þessi, eins og við afgreiðslu laga um heilbrigðisþjónustu, veldur hver á heldur. Það er spurning um pólitík. Það er spurning um ríkisstjórn. Það er spurning um pólitískan vilja að koma þessu og nota þetta verkfæri hvort heldur er til einkavæðingar eða að nota kostnaðargreiningarkerfið til þess að styrkja þær stofnanir sem við höfum í heilbrigðisþjónustunni í dag þannig að opinber framlög til þeirra verði í takt við þá þjónustu sem stofnanirnar veita. Í dag er langt frá því að svo sé. Og auðvitað styðjum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að það séu gerðar þær greiningar á umfangi og rekstri stofnana að þær fái réttlát framlög. Það er ekki hægt að ætla okkur það að við viljum það ekki.

Það sem við viljum líka bæta við og getur verið hluti af þessu, er að stofnanirnar fái skilgreint hvaða hlutverki þær eiga að þjóna. Tökum sem dæmi heilbrigðisstofnun Austurlands. Það var vitað við afgreiðslu síðustu fjárlaga að stofnunin væri afgreidd inn í þetta ár með 200 millj. kr. halla. Og þegar forstöðumenn stofnananna spyrja að því hvar eigi að skera niður og hvaða þjónustu eigi að veita þá eru svörin: „Ja, það er bara ykkar mál. Þið eigið ekki að draga úr þjónustunni. Það á ekki að loka. En þið fáið bara ekki meira fjármagn en þetta.“

Þetta er náttúrlega engin stjórnsýsla, þetta er engin ábyrgð á rekstri í heilbrigðisþjónustunni. Auðvitað viljum við, og því hefur stofnunin óskað eftir núna, fá greiningu á því hvernig reksturinn hefur verið, hvernig hann standi, hvað vanti, og hún kallar eftir því núna á ábyrgð ríkisstjórnarinnar hvaða þjónustu við eigum að veita heilum fjórðungi. Það skiptir máli. Erum við tilbúin að segja: „Þið úti á landi, sama hvort það er fyrir austan eða vestan, skuluð bara búa við skerta þjónustu“? En það er niðurstaðan sem varð í Bretlandi.

Ef hv. þingmenn og aðrir fylgjast með fréttum úr bresku blöðunum eða fjölmiðlum í Bretlandi þá eru uppi hávær mótmæli í Englandi — það er ekki hægt að segja Bretlandi vegna þess að Walesbúar og Skotar eru þarna fyrir utan — vegna skerðingar á þjónustu. Hvers vegna er það? Jú, vegna þess að innleitt er markaðsvætt kerfi sem lýtur lögmálum markaðarins. Þjónustan er þar sem þéttbýlið er, þar sem möguleiki er á samkeppni þannig að þegar við höfum sama pott, fjármagn sem við ætlum að setja í heilbrigðisþjónustuna þá er minna til skiptanna á þá staði sem eru veikari hvort sem það heita landshlutar eða stofnanir. Þeir sterku draga fjármagnið til sín. Þessi háværa mótmælaalda núna í Englandi er afleiðing þeirra kerfisbreytinga að fjármagnið hefur farið á þéttbýlli staði.

Hvað varðar aðdraganda frumvarpsins er rétt að rifja upp að að hluta byggist frumvarp þetta á lögum um heilbrigðisþjónustu. Þótt stuðningur væri við ýmsa aðra þætti þeirrar löggjafar, kom fram eindregin gagnrýni frá þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs á þann hluta frumvarpsins sem sneri að markaðsvæðingu heilbrigðisþjónustunnar og skýr fyrirvari var gerður sérstaklega að því er varðar útboðsheimildir. Atkvæði voru hins vegar greidd með frumvarpinu við lokaafgreiðslu málsins í trausti þess að heimild til útboða mundi ekki nýtt til þess að brjóta niður þá félagslegu heilbrigðisþjónustu sem hér hefur tíðkast og við sögðum: „Veldur hver á heldur.“

Í desember síðastliðnum gerðist það næst að heilbrigðisráðherra fléttaði inn í bandormslöggjöf ákvæði sem veitti honum lagastoð til að skipa stjórn nýrrar sjúkratryggingastofnunar og ráða til hennar forstjóra. Þessu var mótmælt harðlega og bent á að áður en stjórn væri skipuð væri eðlilegt að setja lög um verkefni slíkrar stofnunar.

Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs greiddu atkvæði gegn því að sjúkratryggingastofnun yrði sett á fót með slíkum hraða og bentu sem fyrr segir á að hér væri byrjað á öfugum enda, réttara væri að skilgreina verkefnin fyrst og meta hvort nauðsynlegt væri að setja á stofn nýja ríkisstofnun eða hvort Tryggingastofnun ríkisins gæti áfram annast greiðslu sjúkratrygginga í blandaðri fjármögnun. Þá bentu þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs á hinn mikla kostnaðarauka sem þessu yrði samfara, meðal annars tvöfalda yfirbyggingu í stað einnar. Þessar athugasemdir voru ekki teknar til greina en fullyrt að nægt tóm gæfist til vandaðrar og ítarlegrar umræðu þegar frumvarp um stofnunina liti dagsins ljós.

Frumvarpið sem hér er til afgreiðslu kom loks fram löngu eftir að liðinn var sá frestur sem veittur var til að leggja fram ný mál eins og við öll þekkjum og var afgreitt til 3. umr. á hálfum mánuði. Ég tel næsta víst að umsagnaraðilar hafi ekki fengið það ráðrúm eða umhugsunarfrest til þess að fara yfir frumvarpið til þess að skoða hvaða möguleikar væru þarna og hvaða gildrur væru þarna líka því að þær væntingar sem forsvarsmenn heilbrigðisstofnunarinnar hafa til þessa frumvarps byggja allar á því eða langflestar á því að með nýju fyrirkomulagi sé hægt að semja betur fyrir viðkomandi stofnun.

Það eru ekki allir búnir að átta sig á því að það verður ekkert meira fjármagn lagt í heilbrigðisþjónustuna. Potturinn verður ekkert stærri. Þetta verður spurning um skiptingu. Þeir sem komast inn í það kerfi að fjármagn fylgi sjúklingi verða allir sama marki brenndir. Það verður afkastahvetjandi kerfi. Að sumu leyti er það gott en að öðru leyti getur líka verið um oflækningar eða ofþjónustu að ræða. Við skulum hafa fyrirvara á þessu. Nýja kerfið mun ekki skila sér í betri greiðslum eða öruggara starfsumhverfi til minni stofnana en þær búa við í dag. Við vísum því til föðurhúsanna að undirbúningurinn hafi verið vandaður og góður. Ég vil rekja feril málsins til þess að það sé alveg ljóst hvers vegna við studdum frumvarpið um heilbrigðisþjónustu en sátum síðan hjá hvað varðar bandorminn mikla.

Það er nauðsynlegt fyrir okkur áður en lengra er haldið að gera ítarlega úttekt á þeirri þjónustu sem við búum við og þeirri uppbyggingu sem er hér á landi, sérstaklega með tilliti til einkavæðingar í grunnþjónustunni, í heilbrigðisþjónustunni og annarri grunnþjónustu eins og símanum og sölu bankanna og fleiri greina sem hafa farið út á markaðstorgin á undanförnum árum og skoða með ábyrgum hætti hvort þessar kerfisbreytingar, hvort markaðsvæðingin hafi skilað þjóðinni ágóða, hvort þetta hafi skilað okkur betri þjónustu, hvort þetta hafi skilað okkur ódýrari þjónustu. Hægt væri að nefna mýmörg fyrirtæki í því sambandi. En ef við flettum blöðunum eru frekar fréttir af kvörtunum íbúa í dreifbýli úti um land vegna lélegrar póstþjónustu og símaþjónustu og fleira þannig að við höfum lagt fram frumvarp hér á þingi þess efnis að gerð verði ítarleg rannsókn á áhrifum og afleiðingum markaðsvæðingar samfélagsþjónustunnar. Könnuð verði reynslan af markaðs- og einkavæðingu viðfangsefna ríkis og sveitarfélaga hér á landi og einnig verði dregnar saman og hafðar til hliðsjónar helstu niðurstöður rannsókna á slíkum breytingum erlendis. Við teljum mikilvægt að gera þetta áður en lengra er haldið. Það hefur verið auðveldara í að komast en frá að hverfa að selja opinber fyrirtæki, að einkavæða opinber fyrirtæki, að markaðssetja þá vöru sem við höfum treyst á að sé samfélagsleg og við höfum verið tilbúin til þess að greiða úr sameiginlegum sjóðum okkar mishátt verð fyrir landsmenn eftir því hvort þeir búa í dreifbýli eða þéttbýli eða eru sjúkir eða fatlaðir. Við höfum verið tilbúin að taka sameiginlega á okkur og jafna kostnað vegna þessa.

Þetta frumvarp, 3. mál sem var hér lagt fram á þskj. 3, sem sé í upphafi þessa þings, hefur ekki komist á dagskrá og ég tel að það sé mjög ámælisvert hvað störf þingsins varðar að taka mál hreinlega ekki á dagskrá þingsins, mál sem stjórnarandstaðan setur í forgang við umræður, umsagnir og vinnslu, að þau séu bara látin liggja. Ég tel að ef við hefðum farið í þessa vinnu í haust og hefðum haft þessa úttekt á markaðsvæðingu grunnþjónustunnar, samfélagsþjónustunnar eins og hún hefur verið hér á undanförnum árum þá stæðum við betur í þessari umræðu núna, þ.e. ef við hefðum þetta kortlagt fyrir framan okkur. Það er ekki bara spurning um að spara í krónum. Þetta er líka spurning um gæði þjónustunnar og magn hennar. (Gripið fram í: Og nýtingu fjármagns.) Nýting fjármagnsins. Við viljum öll nýta fjármagnið vel, að farið sé vel með. En ef það kemur niður á þjónustunni og gæðum verða bara sumir hlutir að kosta það sem þeir kosta. Ef við viljum vera ein þjóð í einu landi þá er dýrara að búa úti á landi. Flutningskostnaður er hærri. Það er í gegnum þá samtryggingu sem við höfum með jöfnun í gegnum skattkerfið sem við eigum að stuðla að því að halda áfram og halda utan um.

Þessu framhaldsnefndaráliti fylgja tvö fylgiskjöl sem eru framsögur tveggja fræðimanna. Annars vegar frá Allyson Pollock, Bretlandi, sem var í vor með fund á vegum BSRB og fór þar yfir breska löggjöf og þróun frá árinu 1991. Fyrirlestur hennar fylgir hér með sem fylgiskjal og eins fyrirlestur Görans Dahlgrens um þróun þjónustunnar í Svíþjóð. Göran Dahlgren vann sem sérfræðingur hjá því ráðgjafarfyrirtæki sem heilbrigðisnefnd heimsótti í Stokkhólmi. Hann var þar í mörg ár og er mjög virtur prófessor og fræðimaður í Svíþjóð.

Hæstv. forseti. Ég get lokið þessari fyrstu ræðu minni öðruvísi en að fara aðeins yfir hugtakið einkavæðing. Hvað er einkavæðing? Hv. formaður heilbrigðisnefndar kom enn og aftur inn á það að við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði færum ekki rétt með þegar við værum að tala um einkavæðingu og vil ég því fá að vitna í einn fræðimanninn til viðbótar en það er Rúnar Vilhjálmsson, prófessor við Háskóla Íslands. Hann hefur ítrekað bent á skilgreiningu fræðimanna á hugtakinu einkavæðing. Þetta er ekki eitthvað sem hann hefur fundið upp. Þetta er ekkert sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði erum að finna upp. Ég get ekki ímyndað mér að Birgir Jakobsson, læknir og forstöðumaður Karolinska sjúkrahússins í Stokkhólmi, hafi verið að búa þá skilgreiningu til sjálfur þegar hann var spurður að því hvort einkavæðing væri það að reka einkarekna heilbrigðisþjónustu greidda af almannafé. Hann horfði á okkur og sagði: „Vissulega. Þannig er það. Ef við erum að tala um einkarekstur sem er einkafjármagnaður þá tala þeir bara um prívat, prívat.“ Þannig að hjá þeim nær hugtakið einkavæðing yfir einkarekstur sem er fjármagnaður af opinberu fé.

En einkavæðing er meira. Hæstv. forseti. Ég vil fá að vitna hér í umsögn Rúnars Vilhjálmssonar sem segir m.a.:

„Einkavæðing heilbrigðisþjónustu er yfirhugtak sem felur í sér eitt eða fleira af eftirfarandi: a)Eignatilfærsla (sala eða afhending opinberra stofnana, opinberra fyrirtækja eða annarra opinberra eigna til einkaaðila). b) Tilfærsla á rekstri (frá hinu opinbera til einkaaðila, sbr. einkaframkvæmd). c) Tilfærsla á fjármögnun (þar sem einkafjármögnun kemur að hluta eða öllu leyti í stað opinberrar fjármögnunar áður).“

Þetta eru nokkrir þættir sem hver um sig eða allir saman eru einkavæðing.

Það er því óþarfi fyrir okkur hér í ræðu eftir ræðu að vera að takast á um það hvað sé einkavæðing. Um er að ræða skilgreint hugtak. Þetta er yfirhugtak yfir nokkra þætti og ég tel að rétt sé að nota það þannig.

Ljóst er að stjórnmálamenn hér á landi eru feimnir við að nota orðið einkavæðing eftir það sem á undan er gengið í þeim breytingum sem orðið hafa í stjórnsýslunni. Opinberar stofnanir og almannaþjónusta hefur verið sett yfir á markaðstorgið og hefur það ekki alltaf gefist vel — fólk kvartar undan bæði verri þjónustu og hærri útgjöldum — og því er þessu orði haldið niðri, orðinu einkavæðing. Mörgum þykir betra að nota önnur orð og önnur hugtök.

Í umræðum um frumvarpið í vor var bent á hagsmunatengsl á milli þingmanna og einkafyrirtækja í heilbrigðisþjónustu og um það var fjallað á nýafstaðinni flokksráðstefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í Reykholti, og voru fjölmiðlar hvattir til þess að kynna sér málið betur.

Ef það er svo að Svíar telja sig það litla þjóð að erfitt sé að vera með útboð vegna ýmissa hagsmunatengsla — þeir eru að mestu hættir við að stunda útboð í heilbrigðisþjónustu vegna þess að það er flókið, ekkert nema erfiðleikarnir og kostnaðurinn við það. Ef Svíar eru viðkvæmir fyrir því að hagsmunatengsl geti verið í þessu hvað má þá segja um okkur sem erum eins og lítið þorp í Svíþjóð? Við erum 300.000 manna samfélag og flestir á vinnumarkaði eru annaðhvort vinir, kunningjar, skyldmenni eða bekkjarfélagar. Við eigum mjög erfitt með að komast út úr hagsmunatengslum á einhvern hátt. Ég er ekki að tala um grófa spillingu. Ég er einungis að tala um það að við erum það fá að erfitt er að vera með heilbrigðisþjónustuna á markaðstorgi þó ekki væri nema vegna slíkra tengsla.

Við eigum líka að læra af reynslunni og horfa til þeirra stofnana sem samið hefur verið við í einkarekstri. Ég vil nefna nokkur dæmi. Fyrsta dæmið er Sóltún. Við Sóltún var fyrsti samningurinn gerður, samningur sem átti að vera flaggskipið í gerð slíkra samninga. Það er bindandi samningur að ég tel til 25 ára. Nú viðurkenna allir að sá samningur er samfélaginu dýr. Hann er tryggður fyrirtækinu og það getur fleytt rjómann í öldrunarþjónustunni og á að geta veitt betri þjónustu miðað við það fjármagn sem það fær.

Heilsuverndarstöðin ehf. er nýjasta dæmið. Húsnæði Heilsuverndarstöðvarinnar við Barónsstíg var selt og í því fólst eignatilfærsla frá hinu opinbera til einkageirans. Heilsuverndarstöðin ehf. hóf þar starfsemi haustið 2007. Í kjölfarið hefur fjármagn til ýmissa verkefna verið fært til Heilsuverndarstöðvarinnar.

Fyrir skömmu var samningur Heilsuverndarstöðvarinnar og Reykjavíkurborgar afturkallaður vegna þess að Heilsuverndarstöðin ehf. gat ekki staðið við samninga. Eftir sem áður heyrðist það í fréttum í gær að halda eigi áfram að ræða við Heilsuverndarstöðina ehf. (Forseti hringir.) um að taka að sér áður umsamda þjónustu.

Hæstv. forseti. Ég er rétt rúmlega hálfnuð með framsögu mína. Ég mun hér á eftir, í seinni ræðu, gera grein fyrir breytingartillögum og koma frekar inn á greinargerðina.