135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[15:41]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta heilbrn. (Þuríður Backman) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Svarið við fyrri spurningunni er: Já, við höfðum fullt leyfi til að nota þessa fyrirlestra sem fylgiskjöl með nefndarálitinu, annars hefðum við að sjálfsögðu ekki gert það. Ég var líka spurð hvort mér fyndist siðlegt að hafa sem fylgiskjöl bæklinga sem hagsmunasamtök hafa gefið út. Ég svara aftur: Já. Ef ASÍ hefði staðið fyrir viðlíka ráðstefnu eða fundi sem hefði verið jafnígrundaður og leitað til jafnþekkts fræðimanns á þessu sviði og BSRB gerði já — BHM já, aðrir já.

Við fögnum allri þeirri umræðu sem er um þetta efni og við fögnum því að fengnir eru hingað til lands þekktir og virtir fræðimenn sem eru yfir alla gagnrýni hafnir [Hlátur í þingsal.] til þess að upplýsa okkur um þá þróun sem orðið hefur bæði í Svíþjóð og í Bretlandi. Hingað hafa verið fengnir fræðimenn sem þekkja vel til og því segi ég já við þessum spurningum.