135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[15:50]
Hlusta

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ágætt að hv. þingmaður lesi landsfundarályktanir Sjálfstæðisflokksins. Kannski ætti hún að lesa þær aðeins betur vegna þess að það sem hún fór með áðan stendur ekki þar. (Gripið fram í.)

Varðandi það að hægt sé að hafa útboð í heilbrigðisþjónustu og að í því geti falist að gæðin séu ekki tryggð þykir mér hv. þingmaður tala frekar niður til landlæknis sem hefur það sérstaka verkefni að fylgjast með gæðum heilbrigðisþjónustu. Það vill nú þannig til að ég held að segja megi að þau heilbrigðisyfirvöld sem nú starfa treysta einmitt heilbrigðiskerfinu. Þau treysta landlækni, ekki eins og hv. þingmaður gaf sjálfur í skyn áðan, að þeim sé ekki treystandi.

Svo var dálítið athyglisvert að hún svaraði ekki spurningu minni um bæklunarsamninginn á Akureyri. Mig langar líka að spyrja hana hvort hún telji að hjá Art Medica, fyrirtæki sem vinnur gríðarlega mikilvægt starf, ekki síst fyrir konur, sé um að ræða einhverja ógn fyrir heilbrigðiskerfið sem ætti þá jafnvel að loka. Og hvað með Lækningu sem að sama skapi (Forseti hringir.) gegnir mjög mikilvægu hlutverki?