135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[16:01]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta heilbrn. (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég geri hér grein fyrir framhaldsnefndaráliti um frumvarp til laga um sjúkratryggingar frá 2. minni hluta heilbrigðisnefndar.

Nú þegar komið er að afgreiðslu frumvarps til laga um sjúkratryggingar vill 2. minni hluti heilbrigðisnefndar ítreka það sem fram kom við 2. umr. málsins á síðastliðnu vori að þingmenn Framsóknarflokksins vilja ekki bera ábyrgð á þeim grundvallarbreytingum sem gerðar eru á heilbrigðisþjónustunni með samþykkt frumvarpsins og munu því sitja hjá við lokaafgreiðslu málsins.

Engu að síður er lögð áhersla á að það fyrirkomulag sem tekið er upp getur verið vel nothæft við ákveðnar aðstæður og er ekki ólíkt þeim hugmyndum sem voru komnar fram í stjórnartíð fyrrverandi ríkisstjórnar.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir m.a. að skapað verði svigrúm til fjölbreytilegra rekstrarforma í heilbrigðisþjónustu, m.a. með útboðum og þjónustusamningum. Með því frumvarpi sem hér er til lokaafgreiðslu telja stjórnarflokkarnir sig ná fram þessum markmiðum sínum. Sú fyrirmynd sem einkum hefur verið notuð við vinnu stjórnarflokkanna er sótt til Svíþjóðar og fór heilbrigðisnefnd til Stokkhólms á haustdögum til að fá upplýsingar um það fyrirkomulag sem héraðsyfirvöld í Stokkhólmi hafa viðhaft frá árinu 1992 og byggist á umræddu samskiptaformi ríkisins sem kaupanda og stundum seljanda heilbrigðisþjónustu, kostnaðargreiningu þjónustunnar og blandaðri fjármögnun. Í Svíþjóð er heilbrigðisþjónusta á hendi héraðanna og hafa 7 af 20 héruðum innleitt fyrirkomulag það sem hér um ræðir. Einnig kom fram að um helmingur heilsugæslunnar í Stokkhólmi er nú rekinn af einkaaðilum og fer það hlutfall vaxandi.

Annar minni hluti gerir sér grein fyrir að sá vilji stjórnarflokkanna að færa heilbrigðisþjónustuna inn í rekstrarform einkarekstrar og einkavæðingar verður ekki stöðvaður. Sú lagabreyting sem hér um ræðir er tæki til að koma þeirri breytingu til framkvæmda. Mjög misvísandi upplýsingar hafa borist um það hvort í breytingunum felst sparnaður fyrir ríkissjóð og óljóst er hvernig breytingarnar munu koma við rekstur heilbrigðisþjónustu í dreifbýli þar sem víða er ekki hægt að krefjast afkasta stofnana á við stofnanir í fjölmenni. Áform um að allar heilbrigðisstofnanir verði skilgreindar sem seljendur þjónustu samkvæmt hinu nýja fyrirkomulagi kunna að grafa undan stofnunum úti á landi. Einnig skal á það bent að Tryggingastofnun telur að aukið fjármagn þurfi bæði til rekstrar Tryggingastofnunar og einnig sjúkratrygginga.

Annar minni hluti leggur áherslu á að ríkisstjórnin þurfi að hafa að leiðarljósi nokkur þeirra atriða sem fram komu í svörum viðmælenda heilbrigðisnefndar í umræddri ferð til Stokkhólms. Fram kom að ríkið sem kaupandi þjónustu ætti fremur að nálgast hlutverk sitt á grundvelli samvinnu við veitendur þjónustunnar í stað þess að ýta undir takmarkalausa samkeppni þeirra á milli. Einnig kom fram að ekki væri um raunverulega markaðsvæðingu að ræða þegar kaupandi og seljandi eru sami aðilinn. Þá var lögð áhersla á að langan tíma þurfi til undirbúnings þeim skipulagsbreytingum sem frumvarpið mælir fyrir um og að verulega þurfi að vanda til þeirra.

Annar minni hluti leggur áherslu á að við framkvæmd sjúkratrygginga þurfi að gæta þess að viðhalda háu menntunarstigi innan heilbrigðiskerfisins og að útvistun verkefna hjá einkaaðilum komi ekki niður á stofnunum sem mesta ábyrgð bera í þeim efnum. Þá er enn einu sinni minnt á mikilvægi rafrænnar sjúkraskrár innan heilbrigðiskerfisins.

Þingmenn Framsóknarflokksins leggja áherslu á jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu án tillits til efnahags. Ísland hefur á síðustu árum getað státað af öflugri heilbrigðisþjónustu. Mikilvægt er að áfram verði lagt til grundvallar að heilbrigðisþjónusta getur aldrei orðið í formi hefðbundinna viðskipta þar sem hagnaðarvon ræður för.

Undir nefndarálitið skrifar sú sem hér stendur, Valgerður Sverrisdóttir.

Hæstv. forseti. Eins og hér kemur fram og hefur reyndar komið fram áður munum við sitja hjá við lokaafgreiðslu málsins. Ástæðan er sú að við viljum ekki taka ábyrgð á þessu máli í raun vegna þess að okkur finnst að það sé í besta falli óljóst hvaða leið hæstv. ríkisstjórn og stjórnarflokkarnir ætla að fara með þessu frumvarpi en eins og ég hef áður látið koma fram tel ég að það liggi nokkuð ljóst fyrir að meiningin sé sú að fara út í aukinn einkarekstur og það svo um munar.

Eins og fram kom erum við að velta fyrir okkur því fyrirkomulagi sem verður hjá minni stofnunum, ekki síst á landsbyggðinni. Það hefur reyndar komið fram hjá stjórnarformanni sjúkratrygginga í heilbrigðisnefnd að hann geri sér grein fyrir því að ekki sé hægt að horfa á allar stofnanir og þar á meðal minni stofnanir sem stofnanir sem geti veitt full afköst því að í ýmsum tilfellum er um það að ræða að stofnunin er til staðar og þjónusta er til staðar á viðkomandi svæði og á það viljum við leggja mikla áherslu að svo verði áfram. Hins vegar hefur ekki komið fram hvernig á að meta þær aðstæður sem uppi eru á slíkum stofnunum. Ég lýsi þó ánægju með það að stjórnarformaðurinn lét það koma fram á nefndarfundi að hann gerði sér grein fyrir því að þarna væri um sérstakar aðstæður að ræða sem horfa þyrfti til.

Eins og kemur fram í þessu nefndaráliti vil ég leggja áherslu á í raun þann mjúka tón sem mér fannst vera í umræðunni og í þeim upplýsingum sem okkur bárust í ferð okkar til Svíþjóðar, að þetta sé ekki fyrst og fremst spurning um viðskipti og bisness heldur sé haldið í hið félagslega kerfi sem er náttúrlega gríðarlega mikilvægt og formaðurinn hefur látið þau orð falla hér í umræðunni að áfram verði um félagslegt kerfi að ræða og auðvitað er það eitt af því sem við framsóknarmenn munum fylgjast mjög náið með. Við munum kannski spara stóru orðin í þessari umræðu en miklu frekar veita ríkisstjórninni og heilbrigðisyfirvöldum aðhald í þeim breytingum sem fram undan eru og átta okkur á á hvaða leið ríkisstjórnin er í heilbrigðisþjónustunni vegna þess að það læðist að manni sá grunur að þar sé ekki öll sagan sögð eins og mál standa í dag.

Við leggjum áherslu á að vanda þurfi til undirbúnings og það var einmitt það sem kom fram í Svíþjóð að þessu kerfi var eiginlega skellt á án undirbúnings og þess vegna kom ýmislegt fram sem hefði kannski verið hægt að forðast með því að undirbúa málið betur. Ég efast ekki um að við getum látið okkur ýmislegt að kenningu verða sem var þeim fjötur um fót þegar þeir fóru yfir í þetta kerfi, Svíarnir. Þess má geta að á þeim tíma sem Svíar ákváðu að taka upp þetta fyrirkomulag voru miklar efnahagsþrengingar í Svíþjóð og vilji til þess að nýta fjármagnið betur og spara í heilbrigðisþjónustunni en hins vegar varð það ekki raunin. Það er líka rétt að benda á í þessu sambandi að við Íslendingar stöndum núna frammi fyrir svipuðum aðstæðum eða miklum samdrætti og miklum erfiðleikum í okkar efnahagslífi svo að því leyti til mundi sjálfsagt ekki veita af að koma á góðri nýtingu fjármagns í heilbrigðiskerfinu. En eins og kemur fram í nefndarálitinu er kostnaðarsamt að fara yfir í þetta fyrirkomulag og það er kostnaðarsamt að skipta Tryggingastofnun upp í tvær stofnanir og fjölga í yfirstjórn þar með. Í rauninni tel ég að ekki sjái fyrir endann á þeirri breytingu sem gera þarf á Tryggingastofnun með þessari lagabreytingu. Þar er mikil tæknivinna eftir og mikil fjárfesting í raun í tölvubúnaði og öðru sem ekki er búið að gera ráð fyrir í fjárlagatillögum. Ég veit ekki hvað kemur fram í því frumvarpi til fjárlaga sem birtist innan tíðar en alla vega fannst mér það koma fram í umsögn Tryggingastofnunar ríkisins að ekki væri allt reiknað sem ætti eftir að koma til tals í sambandi við kostnaðinn.

Ekki hefur verið talað mikið um menntunarstigið og um menntun heilbrigðisstétta sem er náttúrlega gríðarlega mikilvægt mál. Þar hefur Landspítalinn sérstaklega haft miklu hlutverki að gegna og ekki bara Landspítalinn, það eru náttúrlega miklu fleiri heilbrigðisstofnanir sem hafa hlutverki að gegna í sambandi við menntunina. Að sjálfsögðu verður að gæta þess að tína ekki allar rúsínurnar út úr stofnununum og vera ekki búin að sjá fyrir endann á því að allir þættir séu dekkaðir í sambandi við menntunina. Þetta tel ég vera gríðarlega mikilvægt og vil því biðja formanninn, sem á eftir að tala aftur í dag, að útskýra frekar hvernig hún sér þá hluti fyrir sér eftir að reksturinn hefur færst að ég vil segja að verulegu leyti út úr því formi sem við þekkjum í dag og yfir í einkarekstur.

Formaður nefndarinnar fór mikinn í því sambandi að markmið laganna væri að tryggja sjúkratryggðum aðstoð til verndar heilbrigði og jafna aðgang að heilbrigðisþjónustu. Það eru góð markmið og allir geta skrifað undir það en hins vegar verður útfærslan að vera í samræmi við þessi orð og það er mikilvægt að fylgst verði með því. Það er líka sagt að hér sé í raun eingöngu um formbreytingu að ræða en ekki mikla efnisbreytingu. Mér finnst það kannski svolítið langt gengið að segja það eða halda því fram vegna þess að breytingin er vissulega mikil.

Margar spurningar vakna sem ekki hefur verið svarað og kannski er ekki hægt að svara öllum spurningum sem upp koma vegna þess að við Íslendingar erum náttúrlega að fara út í, verði frumvarpið að lögum, ákveðna tilraunastarfsemi sem verður að vanda mikið til og margt af því sem maður vildi spyrja um í dag er eitthvað sem ekki er ljóst á þessari stundu.

Svo gerðist það á næstsíðasta fundi í nefndinni að við fengum inn miklar breytingartillögur frá heilbrigðisráðuneytinu sem varða slysatryggingar og það var tekin ákvörðun um að þær skuli færast til sjúkratryggingastofnunar sem er nýjung. Ég velti því fyrir mér og spurði að því í nefndinni hvort það væri í samræmi við þingskapalög að svo veigamikil breyting gæti komið fram við síðustu umræðu um mál þar sem allar lagabreytingar þurfa samkvæmt lögum að fara í gegnum þrjár umræður. Niðurstaða nefndasviðs og niðurstaða ráðuneytisins var að þetta stæðist og við verðum að trúa því að svo sé. En vissulega er þarna um að ræða breytingu sem er ekkert óumdeild. Það er ekkert augljóst að þetta eigi að vera með þessum hætti og getur á ýmsan hátt verið nokkuð flókið af því að örorkugeirinn hefur mikil samskipti við slysatryggingar. Ég sé ekki alveg fyrir mér hvernig þetta verður leyst innan stofnunarinnar en auðvitað mun fólk leggja sig fram um að gera það. Þetta er svona dæmigert fyrir það sem mér finnst svífa yfir vötnunum, að það er margt óútkljáð. Ég tel samt til bóta að tími vannst til þess í sumar að fara betur yfir hlutina og þó að nefndin hafi ekki verið að störfum í sumar, eins og hér hefur komið fram, þá hefur ráðuneytið væntanlega farið yfir alla þessa hluti aftur og komist að þessari niðurstöðu þó að hún sé umdeild. Við munum ekki styðja þessa breytingu, við munum sitja hjá við þá atkvæðagreiðslu þar sem ekki er augljóst að þetta sé rétt, m.a. vegna þess að réttindakaflinn er áfram í almannatryggingalögunum, réttindakaflinn sem varðar örorkugeirann.

Sporin hræða svolítið, m.a. var í sumar gerður samningur við heilsugæslulækna og mér finnst vera gert lítið úr hlutverki hjúkrunarfræðinga í þeim samningi og þar með gert lítið úr forvörnum sem eru gríðarlega mikilvægar og það er nú eitt af því sem kemur fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að leggja eigi mikla áherslu á forvarnir. Hættan í þessu er m.a. sú þar sem farið verður með reksturinn út í einkarekstur, t.d. hvað varðar heilsugæsluna, að þá sé ekki það sama látið ganga yfir þær stofnanir og þær sem reknar eru af ríkinu. Það er það sem ég óttast og mun fylgjast vel með að verði framfylgt. Það er svo mikilvægt að það sama gildi í öllum rekstri, hver sem ber ábyrgð á honum, þegar um þessa þjónustu er að ræða. Að öðrum kosti er ómögulegt að gera samanburð á milli rekstrarforma ef allir sitja ekki við sama borð. Það hefur borið svolítið á því að mínu mati þegar borinn er saman rekstur heilsugæslustöðva, t.d. hér í Reykjavík, sem reknar eru af einkaaðila og svo aftur af ríkinu að þá gildir ekki nákvæmlega það sama á báðum stöðum.

Hv. formaður heilbrigðisnefndar undraðist hik á framsóknarmönnum í þessu mál og það verður hún náttúrlega að eiga við sig. Eins og ég kom inn á áðan viljum við ekki bera ábyrgð á þessari lagasetningu, vissulega er hún að hluta til lagasetning sem áður hefur átt sér stað og þegar framsóknarmenn fóru með völdin í heilbrigðisráðuneytinu. En þar sem svo óljóst er hvert halda skal vil ég ekki taka ábyrgð á lögunum sem slíkum, en eins og ég hef áður sagt er ekki þar með sagt að við séum algerlega á móti því að einkarekstur eigi sér stað að einhverju leyti enda höfum við staðið að samningagerð í þá átt og í ákveðnum tilfellum getur það verið skynsamlegt.

Það kom hér fram og var vitnað til þess að doktor Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir hefði verið einn af ráðgjöfum við smíði þessa frumvarps. Ég tel að það sé sami einstaklingur og skrifaði einmitt fyrst ritgerð um sameiningu sjúkrahúsanna sem var talin af hinu góða en síðan var blaðinu snúið við og allt fundið því til foráttu að þessi sameining skyldi hafa átt sér stað. Ég átti því eiginlega von á því þegar ég heyrði nafn hennar nefnt að þá yrði byrjað á því að skilja sjúkrahúsin í sundur aftur, Landspítalann og Borgarspítala, þar sem það var skoðun hennar, a.m.k. þegar kom að kosningum, að þessi sameining hefði ekki átt að eiga sér stað. En það hefur ekkert heyrst um það úr herbúðum stjórnarflokkanna þannig að ég reikna þá með að það sé ekki á döfinni.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri að sinni. Ég geri mér grein fyrir því eins og fram kom í nefndarálitinu að það er full alvara að gera þetta frumvarp að lögum núna og í sjálfu sér er ekki ástæða til að draga það, þetta eru staðreyndir sem liggja fyrir. Eins og ég sagði munum við fylgjast með verkum ríkisstjórnarinnar í framhaldinu og veita henni aðhald, eftirlitsþátturinn er mikilvægur, eftirlitsþátturinn er bæði hjá landlækni og sjúkratryggingastofnun. Ég tel að þar verði um einhverja skörun að ræða en það er eitt af því sem verður að reyna að leysa þegar út í alvöruna er komið.