135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[16:23]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta heilbrn. (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að við þurfum ekkert að endurtaka okkur með það að í tíð fyrri ríkisstjórnar var farið út í einkarekstur á ákveðnum sviðum þó að það hafi verið í takmörkuðu formi og mjög takmarkað í fjölda.

En fyrst hv. þingmaður nefndi Sóltún sérstaklega þá held ég að ljóst sé í dag að þar hafi ekki verið gerður góður samningur — hann átti að vera mikil fyrirmynd en reynist svo óttalegur bastarður. Þó að ég efist ekki um að í Sóltúni sé veitt góð þjónusta og fólkið sem þar dvelur hafi það gott þá hefur þessi samningur að mörgu leyti verið mjög gallaður.

Hvað varðar Art Medica þá er því ekki að neita að þeir sem þar semja við ríkið höfðu ákaflega sterka stöðu til að semja þar sem þeir höfðu sérþekkingu á því mikilvæga hlutverki sem þar um ræðir. Ég er ekki frá því að fyrrverandi heilbrigðisráðherra hefði frekar viljað reka þá þjónustu áfram í því formi sem áður var eða á þann hefðbundna hátt sem almennt þekktist í stað þess að semja eins og gert var. Ég tel að sá samningur hafi verið dýr en ég vil líka halda því til haga að þar er unnið gott starf.

Ekki er hægt að neita því að þegar ríkið hefur verið að semja þá hefur það oft reynst dýrt. Ég er tilbúin til að halda því fram hér að skort hafi þekkingu eða þurft hafi öflugra lið til samninga í heilbrigðisráðuneytinu til þess að kaupa þjónustu. Ég held að það sé ekkert launungarmál.