135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[16:25]
Hlusta

Frsm. meiri hluta heilbrn. (Ásta Möller) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni þetta ágæta svar. Í máli hv. þingmanns kom fram það sem er kannski meginrótin að frumvarpinu, þ.e. að styrkja kaupendahlutverk ríkisins hvað varðar heilbrigðisþjónustu fyrir almenning. Það er ljóst að í gegnum tíðina hafa heilbrigðisyfirvöld og þeir sem hafa verið að semja um þjónustu verið frekar vanmáttugir gagnvart þeim aðilum sem hafa verið að semja um að veita þjónustuna. Þekkingin liggur hjá veitendum þjónustunnar hvað snertir ýmis atriði, t.d. varðandi kostnað, sem hefur ekki alltaf legið fyrir, varðandi þá þjónustu sem á að veita, varðandi gæði þjónustu og slíkt.

Mig langar því að heyra frá hv. þingmanni hvort það skref sem er þá stigið núna, að styrkja kaupendahlutverkið, geti ekki orðið til þess — hvort við getum ekki orðið sammála um að út úr því fáist betri nýting fjármuna að því tilskildu að hlutverk þessarar nýju stofnunar varðandi eftirlit með gæðum verði til þess að gæði þjónustunnar fyrir skjólstæðinga, sjúklinga, verði meiri.

Þar erum við komin að ákveðnum kjarna í umræðunni, kjarnanum í frumvarpinu sem við ræðum hér — að við sem kaupendur þjónustu, heilbrigðisyfirvöld, og við sem ábyrgðarmenn stjórnvalda leitumst eftir því að veita betri þjónustu, meira aðgengi og fá meira fyrir peninginn.