135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[16:29]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta heilbrn. (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég heyri að hv. þingmaður hefur tekið nærri sér þau orð mín að ég treysti ekki Sjálfstæðisflokknum til þess að fara með heilbrigðismál.

Ég tel að æðioft hafi komið upp ágreiningur, þó að hann færi kannski ekki hátt, í samstarfi okkar, sem var að mörgu leyti ágætt, í sambandi við heilbrigðismálin og þar hafi okkur kannski greint á um grundvallaratriði. Engu að síður stöndum við frammi fyrir því núna að verið er að setja ný lög sem gefa náttúrlega gríðarlega mikla möguleika á breytingum. Miðað við margt af því sem komið hefur fram í umfjöllun um frumvarpið liggur það fyrir að vilji er til þess að gera miklar breytingar á rekstrarforminu.

Auðvitað er ekki hægt að halda því fram að lög sem sett eru á Alþingi eigi bara að henta einhverjum ákveðnum stjórnmálaflokkum. En kannski má segja að einhverjir hafi ekki verið alveg á varðbergi hvað það varðar að lögin sem sett voru um heilbrigðisþjónustuna eru mjög opin og gefa mikla möguleika á samningum sem slíkum, eða samningum eins og þeim sem hafa verið gerðir og munu eflaust verða gerðir í enn ríkari mæli. Ég get því ekki svarað þessu öðruvísi en þannig að þessi lög voru sett og þau gefa mikla möguleika á einkarekstri. Slíkur rekstur hefur verið takmarkaður vegna þess að Framsóknarflokkurinn hefur viljað hafa hann takmarkaðan. En nú eru aðstæður breyttar og þá verðum við að sjá til hvað gerist. Hv. þingmaður verður sjálfsagt áhugasöm um að gera miklar breytingar ef ég þekki hana rétt.