135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[16:32]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta heilbrn. (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér fannst þetta nú ekki vera alveg sanngjarnt hjá hv. þingmanni því að mér fannst ég vera mjög málefnaleg í mínum málflutningi hér. Þó svo að við höfum tekið þá afstöðu til þessa máls að styðja það ekki heldur að sitja hjá við lokaafgreiðslu málsins er því alls ekki algjörlega hent út af borðinu. (Gripið fram í.) Við höfum tekið undir ákveðna þætti og því held ég að sé best að halda hérna til haga.

Því að það sé sérstaklega Framsóknarflokkurinn sem skiptir um skoðun eftir því hvort hann er í stjórn eða stjórnarandstöðu í vil ég hins vegar mótmæla. Ég þekki annan flokk sem er nú ekki gamall, Samfylkinguna, þó ekki sé kannski sanngjarnt að tala um hana hér vegna þess að hún tekur ekki þátt í þessum orðaskiptum. Ég tel að hún hafi kannski sett öll met í sambandi við það að skipta um skoðun eftir því hvort hún er í stjórn eða stjórnarandstöðu og það má alveg telja heilbrigðismálin með í þeim efnum.