135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[16:54]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta heilbrn. (Þuríður Backman) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort honum þyki að samningur sjúkraliða, samningur ljósmæðra, samningur hjúkrunarfræðinga, samningar við stéttarfélög hafi skilað þessum fagstéttum, þessum kvennastéttum, (Gripið fram í.)þeim launakjörum að það sé eitthvað að óttast. Er ekki ýmis starfsemi sem er hagkvæmari og betri innan sameiginlegra samninga en að vísa öllu yfir á fyrirtæki innan stofnunarinnar? Ég vil að hv. þingmaður svari því.

Hv. þingmaður segir að ekki skipti máli hver veiti þjónustuna. Ég spyr hann: Telur hann ekki að það geti valdið auknum kostnaði ríkissjóðs þegar samið er um hærri greiðslur til einkarekinna stofnana eins og við höfum öll dæmin um? Kemur ekki kostnaðurinn niður á ríkissjóði þó að það komi ekki niður á sjúklingunum, einstaklingunum sem fá þjónustuna? Hvað þykir hv. þingmanni um þá formbreytingu að þegar rekstur fer úr opinberri þjónustu yfir í einkarekstur fara líka réttindi starfsmannanna og réttindi stofnunarinnar úr opinberum stjórnsýslurétti yfir á svið einkaréttar? Er það það sem á að stefna að? Er það þar sem réttindi starfsmannanna eiga að liggja? Á að koma inn meiri samkeppni og eiga samkeppnislög að fara að gilda og taka við?