135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[16:59]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að ég hafi svarað fyrri spurningu hv. þingmanns um þetta nýmæli frumvarpsins sem gerir ráð fyrir að stofnunin eigi ekki að semja við stéttarfélög og fagfélög eins og kemur fram í frumvarpinu. Það kemur fram í frumvarpinu í 39. gr. við hverja sjúkratryggingastofnun má semja. Það eru ekki bara fyrirtæki, það geta verið sveitarfélög, sjálfseignarstofnanir og einstaklingar (Gripið fram í.) þannig að þetta kemur mjög skýrt þar fram. Ég tel óþarft að endurtaka röksemdir fyrir því að þetta bann sé jákvætt.

Varðandi að þjónustan muni versna úti á landi hef ég ekki nokkra trú á því. Ég held að hér sé meira að segja tækifæri fyrir bætta þjónustu úti á landi með þessari nýju nálgun, með þessari sjúkratryggingastofnun sem mun kostnaðargreina heilbrigðisþjónustuna og jafnvel beita útboðum þar sem vantar vegna þess að við höfum því miður enn þá biðlista í heilbrigðiskerfi okkar. Markmiðið með þessari nýju hugsun, eins og má finna í frumvarpinu, er að útrýma biðlistum (Forseti hringir.) því að við eigum aldrei að sætta okkur við þá. Ég held að hér séu frekar tækifæri en einhverjar hættur fyrir landsbyggðina.