135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[17:06]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við höfum tekið þá ákvörðun í þingflokki Frjálslynda flokksins að styðja þetta mál. Það er álit okkar að ekki sé verið að gjörbreyta hinu góða heilbrigðiskerfi okkar. Vissulega er verið að reyna að leita leiða til þess að kostnaðargreina þau verk sem unnin eru á sviði heilbrigðismála, en fyrst og fremst verið að leitast við að tryggja góða þjónustu við sjúklinga.

Markmiðið í 1. gr. frumvarpsins hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Markmið laga þessara er að tryggja sjúkratryggðum aðstoð til verndar heilbrigði og jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag, svo sem nánar er kveðið á um í lögum þessum …“

Við teljum að það markmið sé í samræmi við það hlutverk sem við viljum tryggja að heilbrigðisþjónustan hafi. Við viljum tryggja að jafnræði sé með fólki hvað þjónustuna varðar og að sjúkum verði ekki mismunað þegar þeir leita eftir þjónustu eða raðað eftir öðrum sjónarmiðum en þeim að þeir eigi kost á þjónustunni. Við teljum að áfram sé tryggt í frumvarpinu að efnahagur fólks ráði ekki forgangi að heilbrigðisþjónustunni sem við teljum góða og viljum viðhalda sem slíkri.

Við teljum einnig að einkarekstraraðilum sem hafa náð samningum við hina nýju sjúkratryggingastofnun sé settur rammi um að veita þjónustuna með sem hagkvæmustum hætti og jafnframt að tryggja að gæðum og árangri í starfseminni sé náð við að veita heilbrigðisþjónustu með þeim markmiðum að landsmenn sitji við sama borð óháð efnahag og mönnum sé ekki raðað þar upp eftir mismunandi stöðu.

Það er rétt, sem hér hefur komið fram, að heilbrigðisstéttir hafa almennt mælt með samþykki frumvarpsins. Það er einnig athyglisvert að bæði eldri borgarar og öryrkjar, heildarsamtök þeirra, hafa mælt með því að frumvarpið verði samþykkt. Í þessum hópum er nú að finna stóran notendahóp heilbrigðisþjónustunnar.

Heilbrigðisþjónustan tekur til sín mikla fjármuni, u.þ.b. 25% af fjármunum ríkisins hverju sinni. Það hlýtur að vera eðlilegt markmið okkar að reyna að tryggja að góð þjónusta sé veitt, eins góð og hægt er, og jafnframt að tryggja að þeir miklu fjármunir sem fara í þennan málaflokk nýtist sem allra best. Ég tel að réttur sjúklinga sé tryggður í frumvarpinu og ekki á hann gengið með neinum hætti.

Hæstv. forseti. Ég hafði ákveðna fyrirvara við 2. umr. þessa máls og hef einnig fyrirvara nú við afgreiðslu málsins. Við erum að reyna að ná betri meðferð fjármuna en veita samt góða og trygga heilbrigðisþjónustu sem ekki mismunar þegnunum, en við höfum auðvitað séð það hér á landi á mörgum undanförnum árum að stofnanir hafa haft tilhneigingu til að þenjast út án þess að beinlínis megi finna skýringu á því — ekki virðist hafa verið að því stefnt þegar lögin voru sett — og slíkar stofnanir virðast ekki endilega skila markverðum árangri til hagsbóta fyrir þjóðarbúið. Um þetta eru dæmi í stofnanasögunni. Ætli eitt frægasta dæmið sé ekki það þegar Þorsteinn Pálsson, þáverandi sjávarútvegsráðherra, lagði til að Fiskistofa yrði stofnuð og hún yrði aldrei stærri en 11 starfsmenn. Það vita jú allir hve margir starfsmenn starfa þar í dag og það hefur aldrei verið skilgreint í verkum þeirrar stofnunar að hún skili þjóðarbúinu einhverjum ákveðnum hagnaði, það hefur aldrei verið sýnt fram á það, því miður. Hún hefur eftirlitshlutverk en ekki hefur verið sýnt fram á beinan hagnað af starfseminni.

Ég hef því enn þann fyrirvara að sú stofnun sem nú er rætt um þenjist ekki óheft út þannig að fjárhagslegur ávinningur, sem hér er stefnt að, verði enginn. Þó að menn nái góðum árangri í samningum um það hvernig veita skuli sjúkraþjónustu, jafnt á stofnunum sem á hinu einkarekna sviði, geta slíkir fjármunir farið í þessa stofnun, til rekstrar, að það vinnist ekki neitt. Ég hef því þann fyrirvara, hæstv. forseti, að ég tel að gæta þurfi þess að stofnunin þenjist ekki of mikið út.

Með sama hætti þarf að gæta þess að í stofnuninni sé til faglegt þekking til þess að vinna með gerð samninga og ná fram þeim samningum sem heilbrigðisyfirvöld telja eðlilegt á hverjum tíma, samningum sem bæði tryggja góða þjónustu og fara vel með fé skattborgaranna. Þetta er eitt af því sem ég hef fyrirvara um.

Ég hafði líka fyrirvara við 2. umr., og ætla að endurtaka hann hér, að því er varðar frjálsræði til reglugerðarsetninga, ætli við getum ekki orðað það svo. Reyndar er það svo að í frumvarpinu er búið að marka reglugerðunum ákveðinn farveg, talið er upp hvar megi setja reglugerðirnar. Í eldri lögum var þetta alveg galopið. Þannig að út af fyrir sig er búið að setja reglugerðunum ákveðinn farveg og ég lít svo á að þær verði ekki settar án skýringa. Það kemur m.a. fram í nefndaráliti meiri hlutans að litið sé svo á að ráðherra geti ekki beitt reglugerðarvaldi sínu til þess að breyta samningum eða greiðslum í þá veru að það leiði til verulega aukins kostnaðar eða mismununar.

Þetta eru þeir fyrirvarar sem ég hef við þetta mál. Þeir snúa annars vegar að því að stofnunin þenjist ekki óhóflega út og menn sjái ekki ávinninginn af henni. Ég tel að menn eigi að ná ávinningi af sjúkratryggingastofnuninni og því ferli sem þar gæti fylgt á eftir, að samningar verði skilvirkari og fjármunir nýtist betur án þess að þjónustan við sjúklinga sé skert. Það er meginmarkmiðið, tel ég vera, í þessu máli og við sjáum ekki annað í Frjálslynda flokknum en að verið sé að leitast við að setja lögin þannig að þeim markmiðum verði náð. Við höfum því tekið þá ákvörðun að styðja þetta mál. Við höfum jafnan tekið þá afstöðu hér í hv. Alþingi að styðja mál sem við teljum að séu til bóta og geti skilað okkur ávinningi og árangri. En eins og ég gat um í fyrirvara mínum eru vissulega hér ákveðin atriði sem menn þurfa að hafa góða gát á. Við munum reyna að fylgjast vel með því hvernig framkvæmd þessara laga verður en ég sé ekki að hættan sé sérstaklega fólgin í því að einkarekstraraðilum verði falið veita þjónustu.

Ætli einkarekstraraðilum í dag sé ekki falið að veita þjónustu sem nemur um 30% af fjármunum ríkisins sem varið er til heilbrigðismála með einhverjum hætti. Það er út af fyrir sig fyrirkomulag sem er þekkt í heilbrigðisþjónustunni og ekki ástæða til að hafna frumvarpinu sérstaklega vegna þess að slíkt form sé til staðar eða verði tekið upp. Því það er fyrst og fremst markmiðið um trygga og góða þjónustu við sjúklinga, um jöfn réttindi sjúklinga til þess að nálgast þjónustuna sem við þurfum að passa upp á og að þjónustan sé til staðar, að hún sé veitt.

Sá sem hér stendur hafði ekki aðstöðu til að fara með í Svíþjóðarferðina og kynna sér það sem þar kom fram. Ég hef hins vegar reynt að kynna mér nokkuð af því sem þar var borið á borð sem rök með því að fara þessa leið. Svíar hafa í rúm 15 ár, frá 1992, farið þá leið sem lögð er til í frumvarpinu og þeir leggja vissulega mikið upp úr því í sínum viðmiðunum að vanda beri til verka, vanda vel til undirbúnings og að fylgja þurfi málunum vel eftir þegar ferlið er komið í gang og þróa lögin. En það er nú þannig yfirleitt að menn þurfa að fylgjast með því að sá árangur sem að er stefnt náist.

Ég held að mikill ávinningur sé af því að ná fram kostnaðargreiningu og skilvirku eftirliti og með því að reyna að stýra því fjármagni sem við höfum til umráða sem best. Við höfum ekki endalaust fé til umráða í heilbrigðisþjónustuna. Íslendingar vilja allir, hvar í flokki sem þeir standa, að hér sé veitt góð heilbrigðisþjónusta sem allir eigi jafnan aðgang að. Það tel ég að sé markmið okkar og að nauðsynlegt sé, þó að ég hafi varað við útþenslu stofnunarinnar, að sjúkratryggingastofnunin hafi faglega þekkingu til að ná bæði eðlilegum samningum og síðast en ekki síst að tryggja að hér sé veitt góð heilbrigðisþjónusta sem allir eigi jafnan rétt til.