135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[17:34]
Hlusta

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson fór mikinn í þessari ræðu og kvað heldur að honum, enda hvílir málið þungt á honum og reyndar fleirum en honum. Það var áhugavert að hlusta á hann lýsa því hvernig hann túlkaði orð hæstv. forsætisráðherra í Valhöll sem virðast líka hvíla mjög þungt á þingmönnum Vinstri grænna.

Flokkssystkini hv. þm. Ögmundar Jónassonar í þessari umræðu hafa keppst við að gagnrýna rekstur heilbrigðiskerfisins. Við höfum fengið upplýsingar um vondan rekstur hér og vondan rekstur þar. Reyndar hafa menn ekki rætt þann rekstrarárangur sem nú hefur orðið á Landspítalanum – háskólasjúkrahúsi eða Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson, með þessar upplýsingar á borðinu, mótmælir því sérstaklega að menn skuli vilja taka til hendinni í heilbrigðiskerfinu og bæta það. Þetta frumvarp er einmitt í þá veru að bæta heilbrigðiskerfið og gera það betra fyrir þá sem þurfa að nota það. Þetta er nokkuð sem hv. þm. Ögmundur Jónasson vill bara ekki viðurkenna, bara aldeilis ekki. Hann stendur á því fastar en fótunum að hér sé verið að gera eitthvað vont, hér sé ríkið að gera eitthvað vont, hér komi einkaaðilar að. Ég heyrði satt að segja engin rök fyrir því í ræðunni önnur en þau að benda til Bretlands og tala um Thatcher o.fl., en ég fékk engin haldgóð rök fyrir því að menn væru að gera hér vafasama hluti nema síður væri.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson segir að völd til hæstv. heilbrigðisráðherra séu allt of mikil í þessu frumvarpi og nefndi 40. gr. laganna í því samhengi þar sem verið er að veita ráðherra reglugerðarvald. Ég spyr þá hv. þm. Ögmund Jónasson sem er mjög mikill talsmaður ríkisrekstrar og ríkisafskipta af öllu tagi: Er hann sem sagt á móti því að heilbrigðisyfirvöld, pólitískir leiðtogar þar, hafi skoðun á því hvernig heilbrigðiskerfið þróast? Eru það skilaboðin?