135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[17:42]
Hlusta

Frsm. meiri hluta heilbrn. (Ásta Möller) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér hefur fundist umræðan af hálfu Vinstri grænna og ekki síst hv. þm. Ögmundar Jónassonar einkennast af ákveðnum fordómum. Ég hefði akkúrat haldið að átakalínurnar í þessum efnum ættu að snúast fyrst og fremst um það hvort við erum að reka félagslega heilbrigðisþjónustu eða ekki.

Ég sagði í andsvari hér fyrr í dag að ég er algjörlega sammála fræðimanninum Pollock þegar hún segir, með leyfi forseta, „að samkvæmt rannsóknum og fenginni reynslu hafi það sýnt sig að sanngjarnasta, framsæknasta og hagkvæmasta leiðin til að standa straum af útgjöldum til heilbrigðismála sé í gegnum almennt tekjuskattskerfi. Það er slíkt félagslegt heilbrigðiskerfi sem við Íslendingar búum við í dag“. Og við ætlum að standa vörð um það.

Þarna ættu átakalínurnar að vera ef þær væru til staðar en þarna erum við sammála. Við viljum reka áfram félagslegt heilbrigðiskerfi en það á ekki að skipta máli hvaða aðilar veita þessa þjónustu fyrir hönd ríkisins, fyrir skattfé. Það er engin ákvörðun uppi um að auka greiðslur einstaklinga í heilbrigðisþjónustunni, engin ákvörðun um það, og það eru ekki réttar tölur sem koma fram í nefndaráliti 1. minni hluta heilbrigðisnefndar um greiðsluþátttöku einstaklinga.

Ég er með útskrift frá Hagstofu Íslands um búskap hins opinbera frá því í mars 2007 sem sýnir að hlutfall heimila af heildarkostnaði í heilbrigðisþjónustu fór minnkandi frá 1998 til 2006 eins og þessar tölur ná yfir, það hafi minnkað jafnt og þétt, tölurnar voru 18,78% 1978 og bráðabirgðatölur fyrir 2006 eru 16,92%. Línan er niður á við. Þetta hefur verið í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og samstarfsaðila.

Mér finnst átakalínurnar vera rangar (Forseti hringir.) en þær eru hins vegar ekki til staðar þannig að við ættum að vera sammála um þetta.