135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[17:47]
Hlusta

Frsm. meiri hluta heilbrn. (Ásta Möller) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Grundvöllur að þeim breytingum sem við fjöllum um í dag, þ.e. um kaup á heilbrigðisþjónustu, liggur í lögum um heilbrigðisþjónustu sem voru samþykkt vorið 2007. Það frumvarp var, eins og ég sagði fyrr í dag, í smíðum í þrjú ár og með fulltrúa Vinstri grænna innan borðs sem gerði ekki fyrirvara um þennan þátt né aðra þætti í því frumvarpi þegar því var skilað (ÁI: Hvað gerðist svo í þingsal?) til heilbrigðisráðherra.

Síðan er ég með útskrift frá atkvæðagreiðslunni þegar málið fór fyrir þingið og þá kemur fyrirvari hv. þm. Ögmundar Jónassonar um atkvæðagreiðsluna (Gripið fram í.) þar sem hann ræðir um hugleiðingar sínar í þessa veru en samt sem áður komu ekki fram neinar breytingartillögur um þennan kafla, um kaup á heilbrigðisþjónustu, frá hv. þingmönnum Vinstri grænna, engar breytingartillögur. Frumvarpið var síðan samþykkt samhljóða með 48 atkvæðum og þar á meðal þingmanna Vinstri grænna. Ef þessi ótti er til staðar í dag, hvers vegna kom hann ekki fram með skýrari hætti fyrir ári síðan? Hvað gerði það að verkum að hv. þingmaður og hv. þingmenn Vinstri grænna komu ekki með mótmæli sín fyrr, fyrir mörgum árum síðan þess vegna, fyrst þeir gátu ekki sætt sig við að farið yrði í kaup á heilbrigðisþjónustu? Hvers vegna settu þeir sig ekki upp á móti þessum kafla í heilbrigðisþjónustulögunum?