135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[18:04]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil bara mótmæla því að það séu einhverjar mótsagnir í máli mínu. Ég var að segja að hér væri ekki einkavæðing á ferðinni, aftur á móti væri víða einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni. En ég get vel ímyndað mér að það sé svolítið þykkur grautur fyrir suma hv. þingmenn Framsóknarflokksins að átta sig á því að það er munur á hvort menn tala um einkavæðingu eða einkarekstur, það er tvennt ólíkt. Þarna eru því mótsagnir og einhver grautur á ferðinni (Iðnrh.: Framsóknargrautur.)hjá hv. þingmanni sem er greinilega nokkuð þykkur. Hann á augljóslega erfitt með að koma þessum graut niður.

Ég hefði talið að hv. þingmaður hefði átt að hlusta hér á foringja sinn, hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur, þegar hún talaði fyrr í þessari umræðu því að hún talaði af skynsemi. Hún veit það náttúrlega eins og við hin sem höfum lengi verið í heilbrigðisnefnd og fylgst með þeirri vinnu og því sem gert var hér á framsóknartímum í heilbrigðisráðuneytinu að þarna var verið að undirbúa nákvæmlega það sama. Farið var í mjög mikinn einkarekstur undir framsóknarráðherrum. Hér er ekki nokkur einkavæðing á ferðinni en aftur á móti er einkarekstur fyrir í heilbrigðisþjónustunni og það var það sem ég var að benda á.