135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[18:09]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Frú forseti. Það frumvarp sem við ræðum hér hefur bæði góða spretti og miður góða. Ég vil byrja á því í upphafi máls míns að leiðrétta þann misskilning sem fram kom hjá síðasta ræðumanni að ég hafi ekki hlustað á flokkssystur mína, Valgerði Sverrisdóttur, þegar hún flutti framsögu sína sem framsögumaður okkar framsóknarmanna um þetta mál. Það gerði ég einmitt og vil gera öll hennar orð að mínum. Ég er mjög sammála hennar túlkun og sérstaklega lokaorðum hennar í greinargerð um málið þar sem hún varar við því að heilbrigðisþjónustan verði viðskiptum og hagnaðarvon að bráð.

Ég hef sannfæringu fyrir því að hér sé ekki verið að stíga spor inn í nútímavæðingu eins og hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir hélt fram hér áðan og tók þá mið af því að engin lönd væru eins aftarlega á þessari meri og Ísland og Albanía. Þykir mér óþarfi að blanda Albönum, þeim góðu mönnum, inn í þessa umræðu að saklausu, það eru fáir hér til að taka til varna fyrir þeirra hönd. Ég held að hér sé að nokkru leyti um að ræða úrelta hugmyndafræði markaðslausnanna. Það er sem sagt verið að innleiða þá hugmyndafræði sem hefur verið algjörlega ráðandi í stjórnmálum allt frá falli Berlínarmúrsins og hefur í rauninni horfið frá því að vera eitthvað sem við „diskúterum“ yfir í það að vera eitthvað viðtekið sem við rökræðum ekki, einhver viðtekin sannindi. Ég hef trú á því að einmitt á því herrans ári 2008 og næstu árum muni það gerast að við munum taka þessi sannindi mjög til endurskoðunar. Þá er ég ekkert að tala um okkur á Íslandi sérstaklega heldur miklu breiðara samhengi.

Ég held sem sagt að hugmyndafræði eins og markaðshugmyndafræðin hefur birst okkur á Vesturlöndum á undanförnum árum hafi verið full af klisjum og hálfsannleik, af fullyrðingum sem við gáum aldrei að hvað er á bak við. Mig langar til, með leyfi forseta, að lesa hér upp lýsingu á því sem er að gerast í mjög fróðlegri grein sem ég ráðlegg þingheimi öllum að lesa, sem birtist í nýjasta hefti Skírnis og er eftir Pál Skúlason, fyrrv. háskólarektor og heimspeking. Nú get ég ekki rakið allt efni greinarinnar en hann fer þar vel í gegnum hvernig hugmyndafræði villir okkur oft sýn þegar við hættum að horfa í rökin.

Svo að tilvitnun hefjist, með leyfi forseta, segir Páll hér:

Áður en lengra er haldið er rétt að skýra hvað ég við með hugmyndafræði. Með því orði á ég við samtengt safn hugmynda og hleypidóma sem öðlast hefur valdastöðu í mannfélaginu og hvetur fólk til að horfa á heiminn og haga sér á ákveðinn hátt. Hugmyndafræði í þessum skilningi á sér ekki ákveðna talsmenn eins og tiltekin stjórnmálaskoðun eða fræðikenning sem borin er fram í ræðu og riti af hugsandi einstaklingum, hugmyndafræðin styðst ekki við rök heldur það sem segir sig sjálft og þarf ekki að ræða eða rökstyðja. Þannig kyndir hún undir hugsunarleysi enda aðhyllumst við yfirleitt ekki hugmyndafræði af fúsum og frjálsum vilja heldur fylgjum henni í blindni og án þess að velta henni fyrir okkur. Til allrar hamingju hugsa fæst okkar eða breyta að öllu leyti í anda einnar tiltekinnar hugmyndafræði.

Síðan víkur Páll að markaðstrúnni og markaðshyggju samtímans sem hann telur einmitt að hafi verið þessu marki brennd á undanförnum árum. Ég er honum sammála í því mati þó að ég haldi alls ekki að við eigum að hafna markaðslausnunum. Við eigum að hverfa aftur til hins blandaða hagkerfis sem skilaði heiminum og velsæld okkar hér í norðanverðri Evrópu mun meiru en nokkur önnur kenning.

Háskólaprófessorinn segir jafnframt, með leyfi forseta:

Markaðshyggja boðar með stöðugum áróðri að samkeppni sé ávallt af hinu góða, boðskapur sem hefur sannarlega dunið á okkur af sívaxandi þunga. En um leið bannar markaðshyggjan okkur að tala um þann skaða sem samkeppni iðulega veldur með því að auka kostnað, draga úr gæðum og leggja meira á fólk en góðu hófi gegnir.

Þessi orð eiga svo fyllilega við nú þegar við innleiðum markaðshyggjuna í heilbrigðiskerfið. Páll fjallar í þessari grein sérstaklega um menninguna. Það má eiginlega segja að greinin sé nánast skrifuð af tveimur mönnum vegna þess að hann gerir það með skírskotunum í greinar eftir Sigurð Nordal, sem á sér nú skyldmenni hér í þessum sal. (Gripið fram í.)

Það háir mér hér í ræðupúlti að fipast við frammíköll og það er einkanlega af því að ég heyri þau aldrei. Þess vegna vil ég enn og aftur — ég hef sagt þetta hér áður — biðja menn ef þeir vilja kalla fram í hjá mér að gera það sæmilega hátt og skýrt þannig að ég eigi möguleika á að heyra brandarana líka því að ég býst við að frammíkall hæstv. iðnaðarráðherra hafi verið skemmtilegt.

Ég ætla ekki að dvelja meira við það en ég held að við séum hér með því sem hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson kallaði markaðslausnir í heilbrigðiskerfið í raun og veru að ganga inn á þá „dogmu“ sem Páli Skúlasyni verður að umtalsefni þar sem hann talar um menninguna. Hann telur einmitt að markaðshyggjan eigi alls ekki erindi inn í skólakerfið. Ég held að það sama eigi við um heilbrigðiskerfið. Það er eitt sem skiptir mjög miklu máli varðandi þá hugsun sem er grunnþráður í þessu frumvarpi að það er hægt að meta alla hluti fyrir fram en hér á fólk í hlut og við erum því ekki alltaf með mjög mælanlegar stærðir. Við erum með veikindi og við erum með vandamál sem vitum ekki endilega hver eru þegar upp er staðið. Við vitum að einstaklingurinn leitar sér aðstoðar, meira vitum við yfirleitt ekki í upphafi.

Það markaðshyggjumódel sem hér er lagt upp með leggur okkur í raun og veru þá skyldu á herðar að hægt sé að skilgreina hlutinn fyrir fram. Ef við ætlum að skilgreina hann eftir á verður sambandið milli kaupanda og seljanda, sem hér er lagt svo mikið upp úr, afskaplega undarlegt. Það vitum við sem höfum staðið í viðskiptum að ef ekki er vitað fyrir fram hver viðskiptin eru er staða kaupandans alltaf afskaplega slæm. Ég er því ekki viss um að þessi hugmyndafræði um kaupanda og seljanda eigi alltaf rétt á sér.

Ég held líka að í trúarbrögðum á markaðshyggjuna felist að við séum komin ákveðinn hring í hugmyndafræðilegum trúarbrögðum vegna þess að samfara markaðshyggju samtímans — ég vil segja markaðshyggju stórkapítalismans vegna þess að þetta er allsendis ólíkt þeirri markaðshyggju sem Þórbergur Þórðarson talaði hvað mest á móti þegar hann var að gagnrýna hið tilviljanakennda og ráðvillta kapítalíska samfélag. Þetta er markaðshyggja hins vísindalega samfélags. Þetta er markaðshyggja sem á að mörgu leyti meira skylt við draum Þórbergs Þórðarsonar um að hægt sé að reikna alla hluti í litla ferninga og skipuleggja allt út í æsar.

Mig langar til að þingheimur átti sig á því hvað ég er að fara og vil þess vegna vitna hér í greinargerð hv. meiri hluta heilbrigðisnefndar þar sem segir:

„Í lagafrumvarpi þessu er aftur á móti mælt fyrir um hvernig ráðherra geti með skipulögðum hætti nýtt þær valdheimildir sem hann hefur samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu og hvernig umboði hans til þeirra hluta skal fyrir komið innan heilbrigðiskerfisins. Það samskiptaform sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu felur í sér samninga við alla þjónustuaðila innan heilbrigðiskerfisins þar sem nánar er samið um endurgjald fyrir tiltekna þjónustu, magn hennar og gæði. Með öðrum orðum er lagafrumvarpi þessu ætlað að styrkja möguleika ráðherra til að framfylgja stefnu sinni, stýra heilbrigðiskerfinu og taka ákvarðanir um skipulag þjónustunnar, hvort heldur ríkisstofnanir, einkaaðilar, sjálfseignarstofnanir eða sveitarfélög eiga í hlut.“

Ég hefði getað lesið áfram en það gera sér allir grein fyrir því að þetta er algjörlega merkingarlaus texti. Þetta er texti sem í raun og veru er saminn af þeim sem trúir því að hann geti skipulagt framtíðina alveg hreint upp á punkt og prik. Ég er ekkert fyrstur að koma með þá uppgötvun, þetta er það sem margir hafa fjallað um í hagfræðibókum á seinni árum. Þannig er stórfyrirtækjamarkaðshugsjónin í rauninni náskyld (Gripið fram í: Þórbergi Þórðarsyni?) Þórbergi Þórðarsyni og sósíalismanum. Nú langar mig að þakka hv. þm. Ólöfu Nordal sérstaklega fyrir að hafa kallað fram í hátt og skýrt svo að ég gat heyrt hvað hún sagði því að það er muldrið í þingsalnum sem alltaf setur mig út af laginu en ekki svona frammíköll.

Það er nákvæmlega þessi markaðshyggja stórkapítalismans sem sósíaldemókratar heimsins hafa trúað á jafnvel öllum öðrum mönnum fremur á undanförnum árum. Það rennur upp fyrir mér við þetta frumvarp hvað það var sem hæstv. forsætisráðherra átti við þegar hann sagði við myndun núv. ríkisstjórnar að með þessari ríkisstjórn yrði hægt að gera ýmislegt sem ekki væri hægt með nokkrum öðrum stjórnmálaflokki en Samfylkingunni hvað varðar að lagfæra heilbrigðiskerfið að höfði sjálfstæðismanna því að hér fara skoðanir stórkapítalismans og sósíaldemókratismans mjög saman, báðir trúa á reiknivélina. Báðir trúa á reiknilíkanið rétt eins og gert var í gamla áætlunarbúskapnum.

Ég ætla að koma mér út úr þessum hugmyndafræðilega grunni og langar til að gera aðeins að umfjöllunarefni það sem mönnum var tíðrætt um í dag, þ.e. að við framsóknarmenn gætum fallist á þetta frumvarp ef það væru ekki sjálfstæðismenn sem stýrðu heilbrigðisráðuneytinu. Það er ekkert mjög fjarri lagi. Það er einfaldlega þannig að öll lög eru rammi hvort sem er fyrir hið opinbera eða fyrir einkageirann og mörg lög getum við fallist á en við erum ekki hrifnir af því að menn með skoðanir okkur mjög andstæðar fylgi þeim eftir (Gripið fram í.)því að lögin gefa (Gripið fram í.) mjög breitt svigrúm. Framkvæmdarvaldið hefur innan þeirra mjög sjálfstætt vald þannig að það eru engin tíðindi, og það segir sína sögu að framsóknarmenn hafa ekki í mjög langan tíma — ef nokkurn tíma — hleypt (Gripið fram í.)sjálfstæðismönnum að heilbrigðisráðuneytinu. — Ég er orðinn leiður á frammíköllum núna, hv. þingmaður, (Gripið fram í.) ég hef líka svo lítinn tíma, ég hef ekki tíma fyrir þau.

Ég get alveg viðurkennt að það er margt gott í þessu frumvarpi, ég hef ekki tíma til að fara ofan í það í smáatriðum í svo stuttum ræðutíma sem hér gefst. Engu að síður er verið að fara út í mjög dýrar breytingar á heilbrigðiskerfinu og ég hef ekki sannfæringu fyrir því að þær muni skila okkur hagkvæmni. Við höfum verið of upptekin við að breyta hlutunum án þess að gá síðan að því eftir á hvert breytingin hefur leitt. Við breyttum hér rekstri spítalanna á höfuðborgarsvæðinu, sameinuðum þá í einn og komumst síðan að því löngu seinna að það var miklu, miklu dýrara. Um svipað leyti og við komumst að því var ráðist í að sameina allar heilbrigðisstofnanir í þremur sýslum á Suðurlandi, mínu heimahéraði, undir einn hatt. Það var ekki ákveðið af heimamönnum þar heldur af stjórnsýslunni hér fyrir sunnan. Það var auðvitað gert í nafni hagfræðinnar en hálfu ári eftir að það var gert var lýst yfir að auðvitað hefði alls ekki átt að spara með þessu. Það er það sem við eigum eftir að heyra núna hálfu ári eftir að þessi framkvæmd verður komin í gegn að aldrei hafi staðið til að spara. Það hafi aldrei staðið til að græða peninga, það hafi átt að fá eitthvað faglegt og gott út úr þessu. Þetta er sama niðurstaðan og við höfum fengið út úr eiginlega öllum rekstrarsameiningum á Íslandi og þarf engan að undra vegna þess að á Íslandi gildir ekki það að ná fram stærðarhagkvæmni. Við erum einfaldlega það fá, einingarnar verða alltaf það litlar að það sem við gerum þegar við sameinum mjög litlar einingar, sérstaklega hálfgerðar einyrkjaeiningar yfir í millistórar einingar, erum við samkvæmt öllum þekktum hagfræðimódelum að fara úr hagkvæmu fyrirkomulagi yfir í óhagkvæmt.

Til þess að við gætum náð hagkvæmni stærðarinnar þyrftum við einfaldlega að vera þrjár milljónir en ekki 300 þúsund. Ég veit ekki hvort núverandi ríkisstjórn — hún er mjög valdamikil — getur bætt úr því, alla vega tekur það svolítinn tíma veit ég. Mér hefur reyndar sýnst að stefnan hér í innflytjendamálum bendi ekki til þess að það verði mikil bót þar á.

Ég gæti haldið hér áfram en tími minn er á þrotum og ég ítreka þá afstöðu okkar framsóknarmanna að við teljum mikilvægt að heilbrigðiskerfið (Forseti hringir.) verði ekki lagt undir lögmál markaðskerfisins og við munum sitja hjá við afgreiðslu þessa frumvarps.