135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[18:29]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Eins og hv. þingmaður man örugglega eftir er iðnaðarráðherra þeirrar gerðar að hann er helst gagnrýndur fyrir að sofa of lítið. Ég get fullvissað hv. þingmann um að ég dottaði ekki undir ræðu hans enda er hann með skemmtilegri ræðumönnum og ég hlusta með áfergju á hvert einasta orð sem af munni hans hrýtur.

Mér fannst hins vegar hv. þingmaður heldur gefa í þverstæðuna í málflutningi sínum í sinni seinni ræðu. Hann var búinn að segja að lagaramminn væri ágætur. Hann var búinn að segja að það væri margt gott í þessu og hann bætti nú um betur og sagði að í þessu væru stjórnvöldum gefin mörg praktísk tæki til þess að vista út og beita ýmsum úrræðum. Ef það á að vista út einhvers konar þjónustu hlýtur sá sem gerir það líka að geta með einhverjum hætti mælt kostnaðinn við hana, ella væri erfitt að semja um verðið fyrir þjónustuna sem ríkið keypti.

Hv. þingmaður sagði hins vegar síðar í ræðu sinni að heilsa og veikindi væru þess eðlis að það væri mjög erfitt að leggja einhvers konar mælikvarða verðgildis á það. Í þessu felast þverstæður. Ég get að vissu leyti fallist á að ekki sé hægt að mæla sumt sem heilbrigðiskerfið tekur til umfjöllunar og reynir að leysa. Það er ekki hægt að mæla það nákvæmlega. (Gripið fram í.) En lífið gengur ekki út á strangvísindalega nákvæmni. Vísindin ganga oft út á það að nálgast hlutina.

En í öllu falli verður hv. þingmaður að hafa það hugfast þegar hann segir að hann telji ekki hægt að markaðsvæða heilbrigðiskerfið að sá sem hóf það sem hann kallar núna markaðsvæðingu var hans eigin flokkur. Það var Framsóknarflokkurinn sem hóf það, bæði með því að byrja að verðmeta einstakar aðgerðir og í öðru lagi með því hreinlega að vista út heilum málaflokkum. Hann bjó til fyrirtækið Art Medica. Það var Framsóknarflokkurinn sem byrjaði líka með einkarekna heilsugæslu í Salahverfinu í Kópavogi sem framsóknarráðherrarnir (Forseti hringir.) sögðu alltaf að hefði tekist svo vel. Í þessu felast gríðarlegar þverstæður (Forseti hringir.) nema hv. þingmaður sé hérna enn einu sinni að birta ágreininginn í Framsóknarflokknum. Hann er á móti því sem hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir (Forseti hringir.) var að segja í dag.