135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[18:59]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg óþarfi fyrir hv. þingmann að taka það svona illa upp sem ég sagði um að (Gripið fram í.) hér hristu menn höfuðið yfir því þegar ég sagði að (Gripið fram í.) umræðan í Svíþjóð væri mjög gagnrýnin, að það væru miklar umræður um það í Svíþjóð hvert stefnir í heilbrigðismálum þar. Það er bara staðreynd. Það er bara það sem ég sem einstaklingur kynntist á þessum tíma.

Hv. formaður heilbrigðisnefndar taldi hins vegar upp mörg atriði hér í dag og spurði: „Hafa Svíar áhyggjur af þessu? Nei. Þessu? Nei. Hinu? Nei. Svíar hafa ekki áhyggjur af þessu. Ekki þeir Svíar sem við hittum.“ Þeir voru sjö og það voru þrír Íslendingar sem við í heilbrigðisnefnd hittum. Það er 1,8 milljónir manna sem býr í Stokkhólmi, 1,8 milljónir manna og það segir sjálft að ekki er hægt að dæma um skoðanir Svía eða afstöðu eftir fundahöld eins og við vorum með þarna. Þess vegna, frú forseti, vekur það mér undrun að menn hristi höfuðið yfir því þegar ég segi að umræðan í Svíþjóð sé mjög gagnrýnin. Það er ekki bara þessi barnaspítali sem á að fara að opna. Menn eru búnir að opna þarna geislunarklínik, prívatklínik þar sem krabbameinssjúklingar geti komist inn bara ef þeir geti borgað. Og af því að Svíþjóð er hér mikið til umræðu þá er staðreyndin sú að heilbrigðiskerfi Svía er að molna að innan. Það eru orðnir yfir 300 þúsund Svíar sem hafa keypt sér prívattryggingu til að komast af í þessu kerfi sem hægri menn eru búnir að búa til á því sem brátt verður rústir norræna velferðarkerfisins í heilbrigðisþjónustu í Svíþjóð.