135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[19:03]
Hlusta

Frsm. meiri hluta heilbrn. (Ásta Möller) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það vakti athygli mína í nefndaráliti 1. minni hluta á bls. 9 þar sem fullyrt er að greiðsluþátttaka sjúklinga hafi farið vaxandi með hverju árinu og er bent á ákveðna mynd á bls. 10 og síðan aðeins neðar: „Bein kostnaðarþátttaka sjúklinga hefur vaxið hröðum skrefum.“

Ég benti á það fyrr í dag að í skýrslu Hagstofu Íslands um búskap hins opinbera sem kom út í mars 2007 er sýnt fram á að þetta er ekki rétt. Árið 1998 er hlutfall heimila í heildarkostnaði við heilbrigðisþjónustu 18,78% og síðan hefur það með einhverjum skrykkjum farið niður á við, en línan er niður á við og var samkvæmt bráðabirgðatölum 2006 16,92%. Þær fullyrðingar sem koma fram í nefndarálitinu eru settar fram til þess að styrkja hugmyndir Vinstri grænna um að hér sé allt að fara í kaldakol og að nú eigi að fara að auka greiðsluþátttöku sjúklinga o.s.frv. Þetta er rangt sem kemur fram í nefndarálitinu.

Ég bendi jafnframt á að þegar við vorum úti í Svíþjóð var okkur kynnt t.d. greiðsluþátttaka Svía og m.a. kom fram í gögnum sem við höfum milli handanna að heimsókn til heilsugæslustöðvar kostar 140 kr. sænskar sem mundu vera u.þ.b. 2.000 kr. íslenskar sem er náttúrlega miklu meira, tvöfalt eða þrefalt ef ekki fjórfalt eða tífalt hærri upphæð, en hér á landi þar sem aldraðir og börn — börn fá náttúrlega ókeypis og aldraðir borga eitthvað um 350 kr. (Forseti hringir.)

Mig langaði aðeins að heyra í hv. þingmanni um hvaðan hún hefur þessar tölur.