135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[19:10]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það þýðir lítt fyrir hv. þm. Pétur Blöndal að gráta það að það sé lifandi umræða í alþjóðlegum samtökum opinberra starfsmanna um heim allan í þeirri atlögu sem verið er að gera að opinberri þjónustu, að réttindum þeirra og starfi. Það var kallað hér fram í áðan: Hverjir skyldu hafa flutt inn Friedman? Það er bara af hinu góða, hefði ég haldið, að menn kalli eftir reynslu annarra þjóða og fái bestu manna yfirsýn og Allyson Pollock sem hefur áratugareynslu á þessu sviði til að koma hingað. Ég held að menn eigi ekki að kvarta mikið undan því.

Varðandi það að þegar rúsínurnar eru plokkaðar úr kerfinu verði þyngstu og erfiðustu bitarnir eftir hjá hinu opinbera kerfi þá er það einu sinni þannig, hv. þingmaður, að DRG-kerfið svokallaða mælir til að mynda ekki heilsugæsluna. Það mælir heldur ekki endurhæfingu. Enda þótt í þessu frumvarpi og í öllum textum sé talað um þetta sem allsherjarlausn á bókhaldinu í kringum þetta allt saman er það ekki svo einfalt. Heilsugæsluna til að mynda þarf alltaf að meta með tilliti til samsetningar hópsins sem býr á viðkomandi svæði.

Það sem hins vegar er að gerast og gerist með einkavæðingu í grunnþjónustu eins og heilsugæslunni er að það er ekki lengur hægt að skipuleggja hana á landfræðilegum forsendum, ekki út frá fjölskyldum, ekki út frá hverfum, vegna þess að þeir sem veita þjónustuna ákveða sjálfir hverjir eiga að skipta við þá. Það er það sem við vörum við sem aukaverkunum af þessum fyrirhuguðu framkvæmdum hér.