135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[20:10]
Hlusta

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég geri engan ágreining um það að BSRB kalli til sín fræðimenn, að BHM kalli til sín fræðimenn eða hvaða stéttarfélag sem er á Íslandi eða í allri veröldinni kalli til sín fræðimenn sem halda fyrirlestur fyrir félagsmenn og fræða fólk. Ég geri hins vegar athugasemdir við, og hef margoft gert, að pólitískur flokkur á Alþingi geti nýtt sér opinbera fjármuni félaga eins og BSRB — sem er verkalýðsfélag opinberra starfsmanna, sem menn greiða í samkvæmt lögum — á þann hátt að nota fyrirlestra á þeirra vegum sem fylgiskjal með frumvarpi. Mér finnst það siðlaust. Það kann að vera löglegt. En mér þykir það siðlaust.

Mig langar að spyrja hv. þm. Þuríði Backman hvort hún sé virkilega sátt við að slíkt sé gert og ef svo er gert af hverju er þá ekki tilgreint að það sé með samþykki stjórnar BSRB og samþykki fyrirlesaranna að þessu sé beitt í pólitískum tilgangi? Mig langar í öðru lagi að spyrja hv. þingmann, sem er heilbrigðismenntaður, hvort hún dragi yfir höfuð fagmennsku lækna í efa ef þeir starfa sjálfstætt?