135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[20:11]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta heilbrn. (Þuríður Backman) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil svara þessu síðasta strax. Ég dreg fagmennsku lækna ekki í efa ef þeir starfa sjálfstætt, ekki faglega þekkingu þeirra og faglega þjónustu. Ég dreg aftur á móti í efa að í læknastétt séu öðruvísi manneskjur en fólk er almennt þar hlýtur hvatinn til að auðgast ef hægt er að auðgast að vera til staðar. Það er innbyggt í læknastéttinni eins og í öðrum stéttum. Og læknar hafa í þjónustu sinni meiri möguleika í þessu markaðskerfi til þess að þéna meira, hafa hærri tekjur, en hjá því opinbera.

Það eru m.a. rökin fyrir því að við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði styðjum og viljum efla opinbera heilbrigðisþjónustu inni á sjúkrahúsunum, í heilsugæslunni eða í grunngæslunni. Hún er í grunninn ódýrari fyrir þjóðfélagið, m.a. vegna þess að stjórnunarkostnaður er lægri. Hún dregur líka úr mismunun fólks eftir efnahag og gerir ekki greinarmun eftir sjúkdómum og félagslegum aðstæðum.

Við erum á móti markaðsvæðingunni vegna þess að inni í henni er einkarekstur þar sem gerð er krafa um ávöxtun og ágóða. Ef hann er ekki reiddur fram með hærri framlögum úr ríkissjóði, eins og Sóltún og fleiri fyrirtæki í einkarekstri sem samningar hafa verið gerðir við, þá ná þeir í þennan ágóða með því að spara í launum eða þjónustu við sjúklingana. Er það það sem við viljum ef taka á ágóðann út úr fyrirtækjunum en ekki leggja hann inn í fyrirtækin aftur eða þjónustuna eins og hjá sjálfseignarstofnunum? Þess vegna styðjum við opinbera samfélagsþjónustu.