135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[20:30]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta heilbrn. (Þuríður Backman) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ellerti B. Schram fyrir að lýsa sinni sýn á frumvarpið og hvers hann væntir með tilkomu þessa frumvarps þegar það verður orðið að lögum. Hann telur að það muni tryggja bæði jafnrétti, aðgengi og stöðu sjúklinga.

Þar sem okkur hefur orðið mjög tíðrætt um Svíþjóð og reynslu þeirra vil ég rifja upp að í Svíþjóð er jú sama lagasetning hjá ríki og í landsþingunum en það er mjög mismunandi útfærsla á þeim lögum. Í Stokkhólmslandsþingi og í sveitarfélaginu Stokkhólmi hefur nú á allra síðustu árum orðið mjög hröð þróun í einkavæðingarátt, markaðsvæðingu. Nú hefur Stokkhólmslandsþingið sett upp sérstakt kansellí eða ráðgjafarfyrirtæki til að leiðbeina þeim sem vilja fara í einkarekstur við að gera það. Kansellíið á líka að leita að erlendum fyrirtækjum sem eru tilbúin til að fjárfesta í heilbrigðisþjónustunni í Stokkhólmi og það er allt gert til þess að koma einkarekstri á.

Í öðrum landsþingum og sérstaklega fyrir norðan hefur þessi lagasetning ekki leitt til sömu einkavæðingar og í Stokkhólmi. Hvers vegna er það? Er þetta ekki pólitík? Ég spyr: Treystir þingmaðurinn samstarfsflokki sínum til þess að fylgja þeim gildum sem hann var að lýsa hér eða trúir hann því að samstarfsflokkurinn muni fylgja sinni pólitísku stefnu og koma þeim breytingum á sem hann ætlar sér samkvæmt yfirlýsingunni?