135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[20:36]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég skil og styð 40. gr. frumvarpsins sem felur í sér að ráðherra er falið að móta stefnuna til næstu framtíðar. Það finnst mér bara eðlilegt. Til þess er hann kjörinn, til þess hefur hann vald og einhver verður að stýra skútunni. Það þýðir ekkert að láta reka á reiðanum.

Ég geri mér alveg grein fyrir því að hægt er að breyta því kerfi sem er í dag á morgun. Það er hægt að breyta lögum frá einum degi til annars. Ég veit ekki hvað framtíðin ber í skauti sér. (Gripið fram í.) Já, já, það er hægt að breyta öllu. Ég kallaði það fælni við hið óþekkta að þora aldrei að stíga neitt skref af ótta við þriðja skrefið eða fjórða skrefið, (Gripið fram í.) — að maður hrasi á þeirri vegferð.

Við stöndum á þeim tímamótum núna að vera að gera tiltölulega einfalda en skynsamlega breytingu á kerfinu. Mér finnst hún vera hagræðing og ég vil veita þessari tilraun liðstyrk minn. Ég ætla svo ekki að hafa áhyggjur af því hvað geti breyst. Það getur margt breyst þó að við breytum ekki í dag.

Ég deili því þeirri hugsjón og skoðun með hv. þm. Þuríði Backman að við þurfum að standa vörð um sjúkratryggingarnar áfram og hið félagslega heilbrigðiskerfi. Ef tilefni verður til þess að standa við hliðina á henni og með vinstri grænum í þeirri baráttu þá geri ég það þegar þar að kemur en það er bara ekki augnablikið núna. Við tökum nú skynsamlegt skref og við gerum það með góðri samvisku. Svo sjáum við til hvernig það gengur og stöndum vörð um þetta kerfi svo lengi sem við lifum.