135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[20:43]
Hlusta

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það er margt búið að ræða hér í dag um þetta sjúkratryggingafrumvarp og mér sýnist sem þungamiðjan í gagnrýni okkar þingmanna Vinstri grænna og annarra þeirra sem gagnrýnt hafa frumvarpið sé að með stofnun sjúkratryggingastofnunar eða innkaupastofnunar á heilbrigðisþjónustu sé verið að innleiða ákveðna markaðshugsun í heilbrigðiskerfið. Þetta form finnst mér að mörgu leyti varhugavert og ég ætla aðeins að ræða það hér og nú.

Þarna er verið að taka upp ákveðna hugsun. Það er verið að skilgreina kaupendur og seljendur á heilbrigðismarkaði, ef svo má að orði komast, sem er kannski nokkuð fjarri því hvernig við höfum litið á heilbrigðisþjónustuna hingað til. Þess vegna höfum við kallað þetta markaðsvæðingu heilbrigðisþjónustunnar. Þetta form er ýmsum vandkvæðum háð því að hér er auðvitað fyrst og fremst verið að miða við verið sé að stilla upp markaði sem þó er greitt fyrir af opinberu fjármagni, þ.e. hálfmarkaði.

Af því að það hefur verið vinsælt í dag að vitna í fræðimenn má nefna að Hagfræðistofnun Háskóla Íslands gerði úttekt á þessu hugtaki, hálfmarkaði, í skýrslu frá 2003 þar sem kemur fram að ýmis vandkvæði séu bundin því að innleiða form og lögmál einkarekstrar inn í rekstur sem þó er algjörlega fjármagnaður af opinberu fé. Þó að sumir vilji kalla þetta einfalda kerfisbreytingu held ég að full ástæða sé til að staldra við og velta fyrir okkur hvert stefnir varðandi það hvernig við færum saman einkasviðið og almannasviðið og innleiða lögmál inn á almannasviðið sem hingað til hafa þótt gilda um einkasviðið.

Formið hefur þótt vera vandasamt af því að samkeppnin er í raun öll inni í þessum sama potti opinbers fjármagns því að hið opinbera fjármagn eykst ekki þó að formið breytist. Kannski eru fleiri um hituna og ýmis óþekkt vandamál koma upp. Samkeppni er innleidd í opinberan rekstur þar sem við viljum frekar sjá samstarf. Þessir hálfmarkaðir hafa því skapað vandamál jafnframt því að einhverjir kostir kunna auðvitað að vera til staðar.

Það er erfitt að tala um kreddur, það er erfitt að segja: Þessi eða hinn er bara með kreddu því að auðvitað er það svo í pólitík að hugmyndafræði leysist oft upp í kreddur. Svo að ég vitni í fleiri fræðimenn hefur stundum verið sagt að frjálshyggjan sé alræðisstefna nútímans. Vitna ég þá í Slavoj Zizek, þann fræga slóvenska heimspeking sem segir að allt sem við ræðum sé metið á vogarskálum króna og aura. Sú grundvallarbreyting sem við viljum fjalla um er að hér um að ræða kannski það dýrmætasta sem við eigum, þ.e. heilbrigðiskerfið, velferðarkerfið, þangað sem við leitum í okkar veikasta standi. Þar viljum við auðvitað ekki upplifa að allt sé metið út frá krónum og aurum. Þar með er ég ekki að mæla gegn kostnaðargreiningu eða öðru slíku heldur að það sem skiptir máli er hvernig við horfum á manngildið.

Við höfum varað við þessu, ekki síst af því að við teljum að þetta frumvarp opni dyr fyrir auknum einkarekstri og aukinni einkavæðingu. Við höfum t.d. vísað í minnisblað Rúnars Vilhjálmssonar prófessors þar sem hann setur fram efasemdir um markaðsvæðingu heilbrigðisþjónustunnar, ekki síst á þeim forsendum að stjórntæki til einkavæðingar heilbrigðisþjónustu séu stórlega efld. Mér finnst því fullkomlega eðlilegt að við lýsum yfir áhyggjum okkar, við sem stöndum fyrir þann skilning að heilbrigðiskerfið sé á einhvern hátt lykilatriði í okkar samfélagsgerð. Mér finnst því að sjálfsögðu eðlilegt að við horfum aðeins lengra fram í tímann. Þó að hér sé aðeins um eitt skref að ræða skiptir auðvitað máli að við veltum fyrir okkur hvað gerist svo.

Rúnar Vilhjálmsson prófessor varar einnig við því að samkeppni geti jafnvel leitt til þess að gæði heilbrigðisþjónustunnar minnki og kostnaður aukist. Þetta er í sama anda og þeir aðrir fræðimenn sem vitnað er til í nefndaráliti þingmanna Vinstri grænna, Allyson Pollock, sem margoft hefur verið nefnd hér í dag, og Göran Dahlgren, þau ræða þetta, þ.e. að kostnaður geti vissulega aukist við einkarekstur í heilbrigðiskerfinu. Af því að hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir minntist á stjórnunarkostnað í máli sínu áðan er stjórnunarkostnaður í Bretlandi talinn hafa tvöfaldast eftir að komið var á innri markaði, farið úr 6% í 12%. Staðreyndin er sú að einkavæðing og einkarekstur kalla á stóraukið eftirlit hins opinbera, útþenslueftirlitsiðnaðurinn er á vegum hins opinbera líka. Við getum því bæði séð fram á aukinn kostnað við það og aukinn kostnað við innri stjórnun. Þá er ég ekki búin að nefna hugsanlegar arðsemisgreiðslur, sem hér hafa líka verið nefndar, sem hugsanlegan aukafaktor í kostnaði.

Það má helst aldrei nefna Bandaríkin þegar rætt er um heilbrigðismál en mig langar samt að gera það og ég ætla að vitna í enn einn fræðimanninn, Paul Krugman hagfræðing, sem er Íslandsvinur líka af því að hann hefur unnið fyrir íslenska seðlabankann. Hann gaf út dálítið merkilega bók nýlega þar sem hann segir að stóra pólitíska málið í Bandaríkjunum sé heilbrigðiskerfið eða það sem hann kallar Universal Health Care. Hann segir: Við höfum setið eftir hér, eina þróaða landið sem ekki rekur almennilegt velferðarkerfi. Hann telur að þetta verði stærsta kosningamál næstu kosninga, bæði forsetakosninga og þingkosninga, og það sé grundvallaratriði fyrir bandarískt samfélag að þar verði komið á almennri heilbrigðisþjónustu. Hann vill að Bandaríkjamenn líti til evrópskra velferðarríkja.

30–50% af kostnaði við heilbrigðiskerfið í Bandaríkjunum fer einmitt í utanumhald, í tryggingafélögin sem þurfa að eyða gríðarlegum fjármunum í að meta hvern er gott að tryggja og hvern ekki og þar hefur auðvitað verið gengið alla leið. Ég er ekkert að segja að þetta frumvarp snúist um það en þar hefur verið gengið alla leið í því að markaðurinn fái að ráða og vilja margir, einkum bandarískir demókratar, snúa við. Þeir vilja horfa til baka til sjötta áratugarins, þeir vilja horfa til þess hvernig Evrópumenn gerðu þetta. Þess vegna finnst mér að við eigum að velta því fyrir okkur hvað við höfum hér í höndunum og þess vegna verðum við að stíga svo varlega til jarðar þegar við gerum breytingar á því sem við höfum. Þrátt fyrir allt er litið til okkar norrænu ríkjanna sem frumkvöðla í heilbrigðismálum. Við höfum byggt upp þetta velferðarkerfi og þó að okkur finnist við eyða miklu í heilbrigðismál þá eyða Bandaríkjamenn rúmlega 15% af vergri landsframleiðslu, miðað við tölur OECD 2005, í heilbrigðiskerfið. Samt njóta 15% bandarískra borgara ekki heilbrigðisþjónustu þannig að þar sjáum við dæmi um tilraun sem ekki hefur tekist.

Sviss varði 11,5% af vergri landsframleiðslu til heilbrigðismála sama ár, Þýskaland tæpum 11%, við Íslendingar vörðum u.þ.b. 9,5%, erum núna í 10% — fannst mér nefnt í dag. Það er alveg ljóst að útgjöldin hafa auðvitað vaxið til þessa málaflokks samhliða tækniframförum, tækniþróun og auknum kröfum. Samt sem áður höfum við staðið okkur tiltölulega vel í samanburði við þau ríki sem við berum okkur gjarnan saman við. Í þessum efnum skiptir auðvitað máli að fólk festist ekki í kreddum, að samkeppnin, markaðsvæðingin, verði ekki markmið í sjálfu sér heldur að við stefnum í rétta átt, að við nýtum fjármunina sem best, að við förum ekki út í það kerfi að byggja upp heilbrigðisþjónustu sem miðast ekki við landfræðilegar forsendur, að það sé ekki yfirstjórn á heilbrigðisþjónustunni út frá landfræðilegum forsendum. Það skiptir máli að framboð á heilbrigðisþjónustu verði gott fyrir alla landsmenn óháð staðsetningu og það skiptir líka máli að stjórnunarkostnaði verði haldið í skefjum.

Ég vil minna á tillögu okkar þingmanna Vinstri grænna sem við lögðum hér fram á þinginu síðasta haust — mér finnst nú orðið langt síðan — og var vísað til allsherjarnefndar, um rannsókn á afleiðingum markaðsvæðingar, og hún situr þar enn. Ég held að það skipti máli, af því að hér vísar fólk í ýmsa fræðimenn, að það væri ekki úr vegi að við Íslendingar skoðuðum þetta mál hér á landi, hvernig markaðsvæðing innan almannakerfisins hefur tekist.

Mig langar aðeins að nýta þann stuttu tíma sem ég hef hér til að ræða örfáar af þeim breytingartillögum sem fulltrúar okkar í heilbrigðisnefnd, 1. minni hluti, leggur til við frumvarpið og þá sérstaklega breytingartillögur 4 og 6.

Í breytingartillögu 4 leggjum við til að nýr málsliður komi á eftir 2. málslið 2. mgr. svohljóðandi:

„Ef um barn yngra en 18 ára er að ræða taka sjúkratryggingar þátt í kostnaði við fargjald beggja foreldra.“

Þessi málsgrein snýst í rauninni aðeins um fylgd með sjúklingum og við teljum mikilvægt að tekið verði tillit til þess að greiða fargjöld beggja foreldra sem fylgja þurfa veikum börnum í sjúkraflutningum. Við byggjum þessar tillögur t.d. á umsögn Félags hjúkrunarfræðinga og fleiri umsagnaraðila sem komu með umsagnir um þessar málsgreinar.

Sjötta breytingartillaga okkar er af sama meiði. Í a-lið breytingartillögunnar, en hún er við 31. gr., leggjum við til að í stað orðanna „annars foreldris“ komi: „beggja foreldra“ því að við teljum skipta máli að börn njóti samvista við báða foreldra þegar svona á stendur. Þegar um er að ræða veikt barn er það auðvitað gríðarlegt álag á fjölskyldu og það skiptir máli að ef báðir foreldrar vilja fylgja barni þá eigi þeir þess kost og geti það af fjárhagslegum ástæðum.

Í b-lið leggjum við til að aldurstakmark, sem er 18 ára í þeim lið, gildi ekki ef um er að ræða barn sem haldið er verulegri fötlun. Þarna erum við í samhljómi t.d. við umsagnir frá Þroskahjálp og Sjónarhóli sem starfa með fötluðum börnum og þekkja vel aðstæður þeirra.

Báðar þessar breytingartillögur miða að því að létta álag á fjölskyldum barna sem eiga við sjúkdóma að stríða. Í frumvarpinu er talað um lífshættulega sjúkdóma en þessi samtök, Þroskahjálp og Sjónarhóll, gera athugasemd við það því að hver á að meta hvenær um lífshættulega sjúkdóma er að ræða? Þess vegna leggjum við til þessar breytingartillögur, að báðum foreldrum sé gert kleift fjárhagslega að fylgja börnum sínum á þennan hátt og komum þannig til móts við fjölskyldur veikra barna.

Tíminn líður hratt en ég vil bara ítreka að það er varhugavert að ráðast í grundvallarbreytingar og við teljum að þessi innkaupastofnun sé ákveðin grundvallarbreyting, þessi innleiðing markaðslögmála í heilbrigðisþjónustuna. Þetta er grundvallarbreyting á því góða og framsækna heilbrigðiskerfi sem við búum við. Þó að þar megi auðvitað margt bæta má ekki gleyma því að við höfum auðvitað náð gríðarlega góðum árangri á mörgum sviðum. Við teljum að ekki liggi nægilegar rannsóknir á bak við breytingarnar og við teljum líka að þetta sé til marks um allt aðra hugsun í heilbrigðismálum en hefur kannski tíðkast hingað til. Heilbrigðisþjónustan á að vera almannagæði. Þau eiga að vera öllum aðgengileg óháð aðstæðum. Hér eru opnaðar dyr fyrir einkavæðingu og einkarekstri, ráðherra fær auknar heimildir og við teljum að ef sú þróun verður sé hætta á því að samfella glatist í heilbrigðisþjónustu. Hún verði ekki endilega byggð upp á hagkvæmastan hátt heldur í kringum rekstur þeirra sjálfstæðu aðila sem taka að sér verkefnin. Það er hætta á því að einfaldar aðgerðir verði boðnar út en hið opinbera sitji eftir með þyngri verkefni. Það er hætta á því að aukinn kostnaður skapist af því að arðsemiskrafa verði gerð á rekstur heilbrigðisfyrirtækja.

Svona breytingar geta gerst hratt og við höfum séð það í Bretlandi og Svíþjóð. Því er full ástæða til að við ræðum þetta mál ítarlega og kynnum okkur allar þær rannsóknir sem á því hafa verið gerðar áður en ráðist er í slíkar breytingar.